Vilja skipta út dekkjakurli á gervigrasvöllum í Fjarðabyggð

Íþrótta- og tómstundanefnd Fjarðabyggðar hefur falið tómstundafulltrúa að vinna áætlun um að skipta út dekkjakurli á sparkvöllum í sveitarfélaginu.


Í forgangi verða fimm sparkvelli sem byggðir voru með aðkomu Knattspyrnusambands Íslands á árunum 2004-2008. Gúmmíið sem KSÍ lagði til í vellina var hið umdeilda svarta dekkjakurl en því hefur verið haldið fram að það sé skaðlegt heilsu iðkenda.

Að auki eru tveir gervigrasvellir í fullri stærð í sveitarfélaginu. Annars vegar er um að ræða Norðfjarðarvöll sem var tekinn í notkun 2006. Þá var sett á hann svart gúmmí sem ekki er unnið úr dekkjum, um 80-1000 tonn.

Tvisvar hefur verið bætt á hann kurli úr endurunnum dekkjum, samtals um 5-6 tonnum.

Tvær tegundir af gúmmíi eru á Fjarðabyggðarhöllinni en hvorug tegundin er hið umdeilda dekkjagúmmí og aldrei hefur verið bætt á það dekkjakurli.

Síðast var bætt á Fjarðabyggðarhöllina ljósgráu gúmmíi í febrúar 2016 og síðustu ár hefur það verið gert á tveggja ára fresti. Við sama tækifæri er gúmmíið sem fyrir er hreinsað með sérstakri hreinsivél.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar