Vinna leiki á milli vakta

Lið Einherja í annarri deild kvenna er komið í baráttuna um að fara upp um deild í haust eftir að hafa unnið sjö leiki í röð. Þjálfari liðsins segir hafa tekið tíma að spila liðið saman því hópurinn hafi ekki getað æft sem heild fyrr en mótið var komið í gang. Sumarið hefur síðan snúist um fisk og fótbolta.

„Mótið fer af stað í byrjun maí en þá eru ekki allar okkar stelpur komnar heim úr skóla. Fyrsta æfing hópsins var ekki fyrr en 2. eða 3. júní. Þetta kom þegar liðið gat æft saman,“ segir Víglundur Páll Einarsson, sem þjálfað hefur liðið í sumar.

Á þeim tímapunkti var komið að sjötta leik sumarsins og eftir hann hafði Einherji unnið þrjá leiki en tapað þremur. Eftir sjötta leikinn var tveggja vikna frí á liðinu. Einherji tapaði síðan heima fyrir Völsungi í byrjun júlí en hefur síðan unnið alla leiki sína.

Góður grunnur Vopnfirðinga


Einherji hefur glímt við fleiri áskoranir undanfarna mánuði, sem eru svo sem ekki nýjar af nálinni. Karlalið félagsins vann fjórðu deildina í fyrra en síðan tókst ekki að manna það. Það var því dregið úr keppni og áherslan sett öll á kvennaliðið. Samt gekk illa að ráða þjálfara og úr varð að Víglundur tók að sér verkið í apríl.

„Það gekk ágætlega að manna liðið. Við erum með góðan grunn heimastelpna og héldum í tvo leikmenn sem komu til okkar síðasta sumar og voru hér í vetur. Síðan bættum við okkur þremur í viðbót. Hópurinn er samt ekki stór, 14 stelpur og stundum hafa bara 12-13 þeirra verið leikfærar sem sýnir að ekki má mikið út af bregða.“

Margt þess knattspyrnufólks sem hefur komið til Vopnafjarðar hefur ílengst þar. Fyrirliðinn Viktoria Szeles hefur verið þar frá því 2016. „Við köllum hana orðið heimastelpu. Vinnan heldur í fólkið. Það byrjar hjá sveitarfélaginu en flyst síðan til Brims þegar sumarfólkið fer aftur í skóla. Það eru ekki margir sem vilja sleppa þeim störfum.“

Æfa á milli vakta


Þegar Austurfrétt heyrði í Víglundi í morgun var hann nýkominn af næturvakt. Það er einkennandi fyrir liðið. „Ég held að aðstæður okkar séu nokkuð sérstakar því allir leikmenn liðsins eru í vaktavinnu. Við erum öll hjá Brim, ýmist 8-16 á dagvöktum eða 20-8 á næturvöktum. Æfingarnar eru klukkna 17:30. Stundum er vaknað á hádegi til að mæta í heimaleik eða farið beint af vaktinni í flug fyrir útileik. Þetta er ekki auðvelt en það er aldrei kvartað sem sýnir karakterinn. Sumar er sofa, æfa, vinna.“

Á Vopnafirði er enn verið að reyna að klára makrílkvótann. Um 4.000-5.000 tonn eru eftir af honum hjá Brim. Skipin eru að veiðum milli Íslands og Noregs, austur af landinu en hafa verið að feta sig heldur sunnar á bóginn.

Einherji er með besta árangurinn í deildinni á heimavelli, hefur unnið sex leiki en tapað tveimur. „Það hefur verið vel mætt á leikina hér eins og yfirleitt er á Vopnafirði. Við erum líka heppin með að margir brottfluttir koma til að styðja okkur í útileikjum,“ segir Víglundur.

Hugsum fyrst um okkar leik


Liðið er núna í fjórða sæti deildarinnar með 30 stig og á möguleika á að komast upp um deild með hagstæðum úrslitum síðustu fjórum leikjum. Liðið mætur á morgun ÍR sem er í efsta sæti deildarinnar á útivelli. ÍR hefur unnið sex leiki í röð síðan um miðjan júlí. Það skemmtilega er að síðustu tapleikir bæði ÍR og Einherja voru fyrir Völsungi.

„Þetta eru þau lið sem gengið hefur best undanfarinn mánuð og við þurfum toppleik til að fá stig. Við vörum með sjálfstraust inn í leikinn og ætlum okkur að vinna hann. Lykilatriðið er að hugsa fyrst og fremst um okkar leik.

Ég vissi að þessar stelpur væru góðar í fótbolta þannig það væri hægt að gera eitthvað skemmtilegt. Verkefnið var að fá þær til að trúa og sjá sjálfar hvað þær væru góðar í fótbolta. Við höfum sýnt í sumar að við getum unnið öll lið.“

Fyrsti leikurinn á Djúpavogi frá 2007


Nú líður að lokum Íslandsmótsins í knattspyrnu. Spyrnir, sem spilar í fimmtu deildinni, lýkur keppni á morgun gegn Samherjum. Liðin mætast á Djúpavogi. Það er fyrsti meistaraflokksleikurinn þar í Íslandsmóti síðan Neisti tók síðan þátt í mótinu sumarið 2007.

Í annarri deild karla mætir KFA KFG í miklum toppslag í Fjarðabyggðarhöllinni en Höttur/Huginn á krefjandi útileik gegn Þrótti Vogum. Í Lengjudeild kvenna spilar FHL gegn Gróttu á Seltjarnarnesi.

Mynd: Dóri Sig

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.