Vinnuhópi ætlað að kanna hvort hægt verði að laga völlinn á Seyðisfirði

Bæjarráð Seyðisfjarðar hefur skipað fjögurra manna vinnuhóp sem ætlað er að vinna að endurbótum á knattspyrnuvellinum á Seyðisfirði. Brynjar Skúlason, þjálfari meistaraflokksliðs Hugins, er formaður hópsins.

Segja má að Huginn hafi ekki leikið heilt sumar á heimavelli frá árinu 2014. Árið 2015 spilaði liðið fimm af ellefu heimaleikjum í Íslandsmóti þar, sjö árið 2016 en ekki nema þrjá í fyrra. Það sem af er tímabili hefur liðið leikið alla heimaleiki sína á Fellavelli.

Knattspyrnudeild Hugins hefur undanfarin ár ýtt á eftir framkvæmdum við Garðarsvöll á Seyðisfirði. Í vor fékkst sjö milljóna styrkur úr mannvirkjasjóði Knattspyrnusambands Íslands til framkvæmda og 15 milljónir voru áætlaðar í fjárhagsáætlun Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Efasemdir hafa þó verið uppi um að þetta fjármagn dugi til að ráðast í alvöru framkvæmdir á vellinum í sumar.

Í bókun bæjarstjórnar um skipan hópsins segir að honum sé ætlað að kanna hvort hægt sé að hefja framkvæmdir í sumar með það að markmiðið að völlurinn verði leikhæfur sumarið 2019.

Hópnum er ætlað að nýta fjárheimildir í fjárhagsáætlun ársins en einnig leita leiða í samráði við sveitarfélagið um að fullfjármagna framkvæmdina. Þá eru honum falið eftirlit með nýtingu fjármagns, ákvarðanir um aukaverk, samningar við birgja og verktaka þótt allir samningar verði staðfestir af bæjarstjórn.

Hópinn skipa Brynjar Skúlason, formaður og þjálfari meistaraflokks Hugins, Margrét Vera Knútsdóttir, varaformaður, ásamt þeim Sveini Ágústi Þórssyni og Þorvaldi Jóhannssyni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar