Vonlaust hjá Hetti gegn Keflavík

Höttur er enn án sigurs eftir sjö leiki í úrvalsdeild karla í körfuknattleik eftir 66-92 tap gegn Keflavík á Egilsstöðum í gærkvöldi. Leikur Hattar gaf aldrei vonir um að liðið ætti séns gegn Suðurnesjaliðinu.


Þar má reyndar skilja frá fyrstu fimm mínúturnar. Höttur skoraði úr sinni fyrstu sókn og spilaði ágætis vörn. Síðan settu Keflvíkingar í gang.

Fyrst virtust þeir geta labbað niður í gegnum Hattarvörnina að körfunni þar og þegar þeim sýndist, síðan tók við þriggja stiga skotsýning. Síðustu fimm mínúturnar í fyrsta leikhluta bjuggu til 13 stiga forskot gestanna sem sem Höttur gerði sig aldrei líklegan til að vinna upp.

Minnstur varð munurinn 33-24. Þá bað þjálfari Keflvíkinga um leikhlé og skammaði sitt lið hressilega. Árangurinn var sá að keyrt var yfir Hött í kjölfarið.

Undir lok þriðja leikhluta átti Höttur ágætan kafla og minnkaði muninn í 59-48. Einskær klaufagangur Hattar á lokasekúndunum varð hins vegar til þess að Keflavík fór með 17 stiga forskot inn í fjórða leikhlutann.

Í raun má segja að í hvert skipti sem Höttur skoraði eina góða körfu hafi komið tvær enn betri frá Keflavík sem drápu alla stemmingu og von jafn harðan aftur.

Gísli ljósi punkturinn

Sjö leikir í sigurs í deildinni virðast vera farnir að leggjast á sál bæði Hattarliðsins og áhorfenda sem voru óvenju fáir og hljóðlátir í gærkvöldi.

Mestu áhyggjurnar eru hins vegar af frammistöðu liðsins sem virkaði sundurlaust. Sóknarleikurinn virkaði stirður og fátt virtist um hlaup eða kerfi til að losa um samherja. Bandaríkjamaðurinn Kevin Lewis varð stigahæstur með 15 stig en hann fékk lítið af opnum færum.

Sennilega var Gísli Hallsson sá leikmaður Hattar sem oftast var laus undir körfunni. Hann virtist oft koma sér í góð færi og uppskar 14 stig. Hann tók að auki sjö fráköst og spilaði auk miðherjans Mirko Virijevic mest Hattarmanna, 30 mínútur.

Snýst um að vilja vinna fyrir Hött Egilsstöðum

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var allt annað en kátur með frammistöðu liðsins enda lítið til að gleðjast yfir. Í huga Viðars virtist hæpið að tala um lið.


„Það er gjörsamlega óþolandi þegar við förum út úr því sem við ætlum að gera og í eitthvert einstaklingsrugl. Það er sama hvað við æfum, tölum um að spila skipulegan leik og vinna eftir okkar reglum, menn finna alltaf leiðir til að fara að gera eitthvað sem einstaklingar. Þar skiptir engu hvort þeir byrja eða koma inn af bekknum og það er það sem skaðar okkur duglega,“ sagði Viðar Örn eftir leikinn.

„Menn reyna ekki einu sinni. þeir ætla bara að fara að sigra heiminn. Þeir halda að þeir séu flottir með flotta hárgreiðslu og einhverjir svaka kóngar. Þannig virkar þetta ekki.

Ég kalla eftir því hjá mínum mönnum að vinna eftir því sem við vinnum með dags daglega en koma ekki í leiki og fara að hugsa um rassgatið á sjálfum sér.

Við munum spila leikmönnum sem geta farið eftir því sem við vinnum með. Þetta tengist ekki allt einhverjum hæfileikum í körfubolta. Þetta snýst um aga og skipulag og vilja vinna fyrir Hött Egilsstöðum, ekki bara hugsa um sjálfa sig og hvað þeir eru flottir – eða ekki flottir eins og hér í kvöld!“

Höttur heimsækir topplið Tindastóls á Sauðarkróki í næstu viku. Síðan tekur við lykilleikur gegn Þór Þorlákshöfn á heimavelli.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.