Yfir 30 blakspilarar á leið suður: Ferðakostnaðurinn yfir milljón

Fimm blaklið frá Þrótti Neskaupstað með samanlagt 32 spilara eru á leið suður til Reykjavíkur til að spila í Íslandsmóti. Samanlagður ferðakostnaður liðanna nemur 1,1 milljón króna.


Um helgina fer fram síðasta umferðin í deildarkeppni Íslandsmótsins í blaki auk móts hjá þriðja flokki. Meistaraflokkarnir spila í Mosfellsbæ en þriðji flokkurinn í Laugardalshöll. Meistaraflokksliðin eru tvö, karla og kvenna, en með í för eru tvö kvennalið í þriðja flokki og strákar sem mynda sameiginlegt lið með Huginn Seyðisfirði í þeim aldursflokki.

Unnur Ása Atladóttir, framkvæmdastýra blakdeildar Þróttar, segir töluvert púsluspil að koma ferðinni á en flugfarið var pantað fyrir tveimur mánuðum til að fá ÍSÍ fargjald.

Í samtali við Austurfrétt sagði Unnur Ása að vanalega væri ferðast á sem hagkvæmastan hátt og því sé yfirleitt keyrt með yngri flokkana í mót. Hluti þriðja flokksins spilar einnig í meistaraflokki og því hentaði að fljúga öllum.

Unnur Ása segir markmiðið alltaf vera að gera öllum kleift að fara með en blakdeildin fer oft með 40-50 krakka á mót. Að þessu sinni greiðir ferðasjóður SÚN 50% flugfars þriðja flokksins en iðkendurnir afganginn.

Þegar suður er komið bíða liðanna fimm bílaleigubílar sem koma spilurunum á sinn stað og er þegar búið að raða niður í bíla. Leikmenn þriðja flokks gista í skóla sem mótshaldari skaffar en leikmenn meistaraflokks hjá ættingjum og vinum.

Heildarkostnaður ferðarinnar, með mat, gistingu og bílunum, nemur 1,1 milljón króna, þar af flugið 840 þúsundum. Við má bæta vinnutapi leikmanna sem þurftu að hætta að vinna á hádegi til að fara í flugið.

Niðurgreiðsla fæst eins og fyrr segir úr ferðasjóði SÚN, iðkendur leggja til í mat og gistingu og loks kemur styrkur úr ferðasjóði íþróttahreyfingarinnar. Síðasttalda greiðslan kemur hins vegar ekki fyrr en í byrjun næsta árs.

Talsvert álag hefur verið á norðfirskum blakspilurum síðustu vikur. Átta úr hópnum eyddu viku um páskana í landsliðsverkefnum á Ítalíu. Sumir héldu beint þangað eftir að hafa spilað með Þrótti í bikarúrslitum.

Kvennaleikurinn Þróttar og Aftureldingar verður klukkan 18:30 að Varmá. Vinni Afturelding tryggir liðið sér deildarmeistaratitilinn. Þróttur getur hins vegar komist upp fyrir UMFA með sigri og náð deildarmeistaratitlinum tapi HK fyrir Stjörnunni á þriðjudagskvöld.

Karlaliðin spila tvo leiki sá fyrri er í kvöld klukkan 20:30 en sá seinni 13: 15 á morgun. Þróttur er í fjórða sæti deildarinnar en getur náð þriðja sætinu af KA sem tekur á móti Stjörnunni um helgina. Leikirnir verða sýndur beint á SportTV.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.