Ýmsar tengingar austur í Íslandsmeistaraliði Breiðabliks

Markvörður, þjálfari og sóknarmaður í liði nýkrýndra Íslandsmeistara kvenna í knattspyrnu, Breiðabliks, eiga allir sterkar tengingar við Austfirði. Einn þeirra virðist sannarlega hafa skráð sig í sögubækurnar.

Markvörðurinn er Telma Ívarsdóttir, uppalin í Neskaupstað. Hún spilaði fyrst með meistaraflokki Fjarðabyggðar sumarið 2014, þá sem sóknarmaður en færði sig í markið árið 2015. Í lok þess sumars sótti Breiðablik hana og þar hefur hún verið á samningi í sumar.

Telma hefur alltaf haldið tengslum austur og sýndi þau í sumar þegar hún gaf áritaða landsliðstreyju til styrktar þriðja flokki kvenna sem fór á mót á Spáni í sumar. Treyjan var boðin upp í hálfleik á leik FHL gegn Gróttu.

Breiðablik vann Íslandsmeistaratitilinn um helgina eftir 0-0 jafntefli gegn Val í lokaumferðinni. Leikurinn var einn þeirra tólf þar sem Telma hélt markinu hreinu í sumar enda fékk hún gullhanskann sem besti markvörður deildarinnar í mótslok.

Sumarið 2014 var hið fyrsta sem Nik Chamberlain þjálfaði meistaraflokk kvenna en hann var þá með Fjarðabyggð. Hann spilaði með karlaliði félagsins sama ár. Nik hefur þó verið tengdastur Seyðisfirði og spilaði með liðinu 2010, 2012, 2013 og 2017. Þetta var hans fyrsta ár sem þjálfari Breiðabliks en hann stýrði Þrótti Reykjavík undanfarin ár.

Fyrsti leikmaðurinn til að vinna tvær deildir?


Breiðablik fór inn í úrslitakeppnina stigi á eftir Val en endaði stigi framar eftir hinn hreina úrslitaleik um helgina. Félagið græddi á tilkomu Samönthu Smith, sem upphaflega kom til landsins í vor til að spila með FHL. Hún skipti til Blika eftir 15 mörk í 14 deildarleikjum. Hún skoraði síðan níu mörk í sex deildarleikjum fyrir nýja félagið.

Samantha kann hafa unnið einstakt afrek því ekki hafa enn komið fram heimildir um leikmann sem orðið hefur Íslandsmeistari í tveimur deildum sama sumarið. Í samtali við Austurfrétt sagðist Víðir Sigurðsson frá Fáskrúðsfirði, sem skrifað hefur uppgjörsbækur um íslenska knattspyrnu samfleytt frá árinu 1982, sannfærður um að Samantha væri eini leikmaðurinn sem sama sumarið hefði unnið tvær efstu deildirnar. Hann kvaðst ennfremur efast um að nokkur hefði áður unnið þetta afrek þar sem engar ábendingar hefðu borist eftir að umræða um árangur Sammy hófst um helgina.

Að auki spilaði Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir sex leiki með Breiðabliki í sumar. Hún spilaði með Hetti upp í gegnum yngri flokkana en spilaði fyrsta meistaraflokksleikinn með Völsungi. Hún meiddist snemma sumars og fór síðan út til Bandaríkjanna í ágúst þar sem hún spilar fótbolta meðfram háskólanámi í Harvard. Áslaug Munda er komin þar á fullt og skoraði nýverið tvö mörk fyrir lið sitt.

Sammy Smith í leik með FHL í sumar. Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar