Hvað skal gera með lokaritgerð?

Article Index

ingvi georgs kaffitarNýverið, í sambandi við skrif á lokaritgerð minni í Háskólanum í Reykjavík gerðist svolítið skemmtilegt sem ég er mikið spurður út í dag og langaði því að skrifa niður. Þannig er mál með vexti að ég er í dag styrktur af Kaffitár og Ömmubakstri fyrir það að skrifa ritgerð. Ritgerð sem kemur fyrirtækjunum ekkert við en vakti þó nægilega mikla athygli til að þau íhuguðu að styrkja mig. Því langaði mig að skrifa niður hvað ég gerði, vonandi virkja ykkur, og gefa hugmyndir til að nota tækifærið og mögulega gera það sama.

Styrkir

Þetta byrjaði allt saman á einu alltof löngu spjalli í kaffipásu í sófunum uppi í HR. Umræðan snérist um styrki til íþróttafólks á nánast hverju einasta sviði sem hægt er að ræða. Búnað frá Nike, orkudrykki hér og þar, máltíðir á Saffran, BK kjúkling og hvaðeina. Þetta fékk mig til að hugsa: umræðan í samfélaginu er sú að við eigum að mennta okkur og að það sé grundvöllur að hinu stórgóða lífi. Þessu er ég hjartanlega sammála en af hverju standa íþróttamenn okkur ofar og framar þegar að kemur að styrkjum. Af hverju er ekki verið að styrkja fleiri námsmenn við þeirra „störf". Ég fór því að spyrja mig „af hverju ekki ég?". Og þakka það nýfengnu mottói að þú veist ekki hvað þú getur fengið fyrr en þú færð nei.

Ég er langt kominn í náminu, er að klára meistaranám og tel mig standa ýmsum íþróttamönnum hér heima jafnfætis ef staðsetning þeirra í íþróttum er borin saman við staðsetningu mína í náminu. Báðir hópar gætu talist atvinnumenn í sinni grein (ég gef mér það að minnsta kosti). Ég er að vísu ekki í þeirri stöðu að fá námsstyrk frá HR sem er auðvitað „mekkað" en það eru líka ekki allir í fótboltaliði sem fá styrk frá Nike. Hinsvegar eru fjölmargir að fá máltíðir, orkudrykki og annan varning sem því viðkemur.

En af hverju ekki ég? Ég nýtti því það sem ég hef lært í markaðsfræðinni og gerði smá markhópagreiningu á sjálfum mér sem atvinnunámsmanni til að fyrst og fremst átta mig á því hvað ég í raun teldi mig skilið að fá. (get sent greininguna á alla sem vilja..lítið excel skjal). Því næst, þá reyndi á hugmyndaauðgi og mátt minn til að koma hugmyndinni á framfæri. Fór því svo að ég ákvað að senda tölvupóst á þá kaffiframleiðendur sem skiluðu sér á fyrstu leitarniðurstöðu í gegnum Google og fengu þeir allir tölvupóst, sem lesa má á næstu síðu.

Eftir stutta stund var ég kominn með tvö tilboð um fund frá mismunandi aðilum. Ég hitti báða aðila en ákvað á endanum að velja Kaffitár enda var þar frábær og hlý kona sem gaf mér svo ótrúlega vingjarnlegt viðmót við fyrstu samskipti að mér fannst ég ekki geta drukkið annað kaffi til frambúðar. Ég stóð við mitt og kynnti hugmyndina og Kaffitár á kynningu um meistararitgerðina fyrir samnemendur og leiðbeinendur og bauð að sjálfsögðu upp á rjúkandi heitt El Injerto.

Því langar mig að prédika þrennt til þeirra sem sjá kannski tækifæri til að feta í sömu spor og biðja um styrk fyrir ritgerðarskrif.

1. Ekki búast við jái. Vertu jákvæð/ur, vonaðu það besta en í sannleika sagt skaltu ekki búast við já. Ég fékk fimm nei og tvö já.

2. Ekki bara stökkva til fyrirtækja og ætlast til að þau vilji styrkja þig. Settu þetta upp þannig þau sjái hag af því. Í mínu tilfelli þótti þetta nýstárlegt, uppsetning var skemmtileg og viðkomandi fannst alveg tilvalið að slá til og styrkja „málefnið."

3. Gangi þér sem allra best. Gerðu eitthvað nýtt og sjáðu hlutina sem ganga vel annars staðar útfrá sjálfum þér. Fyrirtæki eru ekki alltaf til í að styrkja en þú veist ekkert um það fyrr en þú spyrð að því.

Es. Síðar meir fór ég á fund með Ömmubakstri sem höfðu heyrt af Kaffitársstyrknum og spurðu þau hvort mig vantaði ekki smá bakkelsi til að skola niður öllu þessu kaffi. Í þessum töluðu snæði ég lágkolvetna Gæða hrökkbrauð meðan ég skola niður með El Injerto kaffi frá Kaffitár. Svo er maður spenntur að prófa nýja Heilkorna rúgbrauðið frá nýju „ömmu".

Takk kærlega fyrir mig Kaffitár og Ömmubakstur! Og gangi ykkur hinum sömuleiðis vel að æfa ykkur í einhverju öðru en bara að skrifa. Go sell yourself!

@itgeorgs


Góðan daginn,

ég var að fá hugmynd.

Ég heiti Ingvi Þór, er í meistaranámi í Alþjóðaviðskiptum í HR og drekk óhóflega mikið af kaffi. Í samanburði við íþróttafólk á styrk, þá er ég ekki að drekka meira af kaffi en afreksfólk drekkur eða neytir af fæðubótarefnum, powerade eða öðru sem hjálpar því að ná frama í því sem það gerir.

Vandamálið er þetta:

Ég er 23 ára, nýbyrjaður að búa og þegar ég kem út í búð veit ég ekki hvaða kaffi ég á að kaupa. Vinir mínir sem ég spyr hafa ekki hugmynd og dettur ekkert í hug. Þessi óformlega rannsókn mín upp í HR hefur átt sér stað síðastliðnar vikur eftir að ég áttaði mig á vandamálinu. Kaffidrykkjufólk háskólanna lifir á sjálfsölum og ódýrum bollum sem segja ekki hvaða kaffi er neytt í hverjum bolla.

Drykkja á kaffi í háskólum er sennilegast meiri en á vatni, orkudrykkjum og áfengi (Ekki til samans). Samt er ekkert að gerast í markaðssetningu, auglýsingu vörumerkis og þar fram eftir götum.

Ég verð með kynningu á meistararitgerð minni (get sagt þér frá henni síðar) fyrir 10-15 manns 24 mars.

Hugmyndin:
-Þú setur mig á styrk og ég neyti einungis kaffis frá þér, promotera vöruna upp í skóla og allstaðar annarsstaðar.
- Ég kynni mig sem styrkþega Kaffitár á kynningarfundinum en þar munu koma til með að sitja markaðsfræðiprófessorar sem eru í HR. Þar á meðal Dr. Valdimar neytendasérfræðingur.
- Ég get lofað þér að hugmyndin á eftir að vekja athygli, dreifa úr sér og þeir munu gera þetta að umræðu á öðrum vettvangi. Þú gætir verið að ná þér í hið margumtalað word-of-mouth
- Í byrjun meistararitgerða er oftast preface þar sem skrifendur þakka aðstoðina, stuðninginn og velvild aðstandenda og þar fram eftir götum. Ég mun koma til með að skrifa nafn Kaffitárs þar og þakka ómetanlegan stuðning.
Ritgerð fær lesningu frá 2+. Fer allt eftir áhuga. Lofa engu en mun senda hana á tilvonandi atvinnuleitendur. Hver veit nema ég komist í vísindatímarit.

- Í versta falli eru að fá promotion fyrir 10-15 þann 24 mars, situr uppi með að gefa mér afgangsskammta af kaffi næstu 2 mánuði og getur brosað yfir að hafa reynt að hjálpa háskólanema að auglýsa á nýstárlegan máta. Öll lærum við eitthvað á þessu !

Hvað er í boði fyrir þig:

- Tækifæri til að taka af skarið og fanga markhóp sem neytir vörunnar en veit ekkert um hana.
- Frumleg leið til að kynna þig.
- Ég held fyrstu kaffikynninguna á fundinum eftir 10 daga.
- Ég set nafn Kaffitárs fremst í ritgerðina mína og þakka fyrir óbærilegan stuðning.

Hlakka til að heyra frá þér.

Það er spurning með að setjast yfir einum bolla í lok viku og ræða málin.
Bara ef þú hefur áhuga!

Eigðu góðan dag!

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.