Þögnin rofin – breytinga er þörf
Mikil óvissa ríkir nú í atvinnumálum á Djúpavogi eftir að Vísir hf tilkynnti að þeir hyggðust hætta fiskvinnslu á staðnum. Vonandi rætist úr en margar spurningar hafa vaknað síðustu vikur og fáum hefur verið svarað.Útgerðarfyrirtækið Vísir virðist vera búið að spila rassinn úr buxunum og ef þeir ætla að bjarga fyrirtækinu verða þeir víst að draga úr umsvifum og flytja starfsemina á Grindavíkur. Eftir því sem heyrst hefur var það ríkisbankinn okkar, Landsbankinn, sem þrýsti á fyrirtækið að grípa til þessara aðgerða.
Margir hafa spurt en ekki fengið svar, af hverju gera eigendur bankans (íslenska ríkið) okkur þetta? Eða kannski frekar af hverju er þetta ekki stoppað af? Enginn hefur svarað því.
Aðgerðaleysi það eina frá stjórnvöldum
Forráðamenn Vísis hafa sagt í viðtölum að þeir ætli að sjá til þess að enginn þurfi að missa vinnuna, starfsfólk geti fengið vinnu hjá Vísi í Grindavík og þeim sem ekki vilja flytja verði útveguð önnur störf, enn er ekki komið í ljós hvað fyrirtækið ætlar að koma með í staðinn en vonandi skýrist það fljótlega.
Fram að þessu hafa stjórnvöld ekki gert neitt en segjast ætla að bíða og sjá hvað Vísir hf ætlar sér, sem er að sumu leiti skiljanlegt miðað við loforð forráðamanna fyrirtækisins. Það breytir því samt ekki að gott hefði verið fyrir alla að stjórnvöld hefðu rætt við heimamenn, sveitarstjórn og fyrirtækið, þannig hefði mátt minnka óvissuna og e.t.v. væri hægt að setja áætlun í gang með hvernig bregðast á við breyttum aðstæðum. Þögn og aðgerðaleysi er það eina sem kemur frá þeim sem stjórna landinu.
Í fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða segir að markmið laganna sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Hefur sá grunur læðst að einhverjum að lög um stjórn fiskveiða séu ekki að virka sem skildi? Til dæmis þeim sem búa á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði.
Þingmenn kjördæmisins voru beðnir að koma á Djúpavog og funda með heimamönnum en þeir sáu sér ekki færi á vegna tímaskorts en lofuðu í staðinn að funda með sveitarstjórninni ef hún gæti hitt þingmennina í smástund á Egilsstöðum. Fjórir af tíu þingmönnum mættu og því er eðlilegt að menn spyrji sig, er áhugi hjá stjórnvöldum að gera eitthvað í þessu? Vitum við ekki öll svarið við því. Það er næsta víst að áhuginn á atkvæðunum er meiri.
AFLvana?
Einu sinni voru til verkalýðsforkólfar sem létu í sér heyra ef eitthvað bjátaði á hjá verkalýðnum. Gvendur Jaki er sá sem fyrst kemur upp í hugann. Svoleiðis fólk er ekki til lengur. Það hefur vakið athygli margra að hið svokallaða verkalýðsfélag AFL, hefur setið algerlega aðgerðalaust, AFLvana, og ekki hefur heyrst hósti eða stuna frá þeim. Þetta kalla margir að skíta upp á bak.
Ekki það að AFL hefði breytt ákvörðun Vísis en það hefði allavega verið stuðningur við bæjarbúa ef heyrst hefði frá þeim og svo hefur heldur betur verið tækifæri til að setja pressu á stjórnvöld, já og kannski Vísi líka. En kannski hefur ekki verið tími til að gera þetta þó að það hafi verið tími til að koma fram í auglýsingu fyrir LÍÚ, hver veit?
Hvað geta íbúarnir gert?
Eftir því sem ég veit best hefur sveitarstjóri og sveitarstjórn reynt af fremsta megni að fara hefðbundnar leiðir til að höggið verði sem minnst fyrir sveitarfélagið með því að funda með hinum ýmsu aðilum. Ég er ekki viss um að það skili miklu en engu að síður er það skylda sveitarstjórnar að vinna að því markmiði að góð niðurstaða fáist fyrir sveitarfélagið. Er kannski kominn tími á óhefðbundnar aðferðir?
Hvað geta íbúarnir gert? Þeir standa frammi fyrir risavöxnum vanda. Stendur það til boða að kaupa kvóta, skip og vinnslu og halda áfram á sömu braut? Nei þær aðstæður eru ekki fyrir hendi. Það er kannski hægt að mótmæla og þrýsta á stjórnvöld að grípa til aðgerða. Ef við tækjum franska bændur til fyrirmyndar myndum við væntanlega fara með nokkra bílfarma af fiskúrgangi og sturta framan við Alþingishúsið. Einhverjir gætu ef til vill hugsað sér að róa á kvótalausum bátum og landa aflanum og láta vigta þá í mótmælaskyni við kvótakerfið. Ekki er víst að margir vilji taka þá áhættu.
Samt er það nú þannig að öllum breytingum fylgja tækifæri og væntanlega verður að reyna að finna nýjar lausnir, hvort sem þær tengjast sjávarútvegi eða ekki. Allavega er mannauður til staðar og með bjartsýni og frumleika að vopni er ég viss um að ný tækifæri bíða handan við hornið.
Millifyrirsagnir eru Austurfréttar
Athugasemd frá AFLi.