Athugasemd við grein Kristjáns Ingimarssonar
Kristján Ingimarsson gerir athugasemd við athafnir- eða réttara sagt athafnaleysi AFL Starfsgreinafélags í kjölfar tilkynningar Vísis hf . um flutning vinnslu frá Djúpavogi til Grindavíkur. Kristján hefur algerlega rétt fyrir sér í því að félagið hefði getað komið fram opinberlega til að sýna bæjarbúum stuðning en verulegur vafi er á að yfirlýsingar félagsins hefðu haft minnstu áhrif á ákvörðun fyrirtækisins.Daginn sem fréttin um breytingarnar bárust var bæði ég og formaður AFLs í sambandi við trúnaðarmann AFLs hjá Vísi – formaðurinn ræddi við forsvarsmenn Vísis og ég hef rætt nokkrum sinnum við sveitarstjórann.
Það hefur allan tímann legið fyrir að AFL Starfsgreinafélag væri tilbúið til hvers kyns aðgerða sem kynnu að breyta þessari ákvörðun. Það voru hins vegar tilmæli sveitarstjóra á fyrstu dögum eftir að fréttin birtist að við værum „hófsöm" í málflutningi því sveitarstjórnin væri í viðræðum við fyrirtækið og á tímabili stóðu jafnvel vonir til að unnt yrði að snúa þessari ákvörðun.
Það var því meðvituð ákvörðun okkar á þeim tíma að bíða á hliðarlínunni og sjá hvaða árangur yrði af viðræðum sveitarstjórnar við fyrirtækið og þingmenn og ráðherra. Nú er okkur ljóst að sveitarstjórnin telur að ekki hafi orðið neinn árangur af þeim viðræðum og að tími „kurteisinnar" er liðinn.
Fyrir nokkrum dögum samþykktum við formaður AFLs að taka þátt í kynningarverkefni með Djúpavogshrepp og lofuðum með fyrirvara um samþykkt stjórnar AFLs, fjármagni til þess verkefnis. Ennfremur samþykkti aðalfundur AFLs ályktun um málið á síðasta aðalfundi sem haldinn var á Djúpavogi 3. maí. Sjónarmið mitt persónulega er nokkuð ljóst og erfitt að fara með það fram í „hófstilltum hætti" því ég er og hef verið þeirrar skoðunar að meðferð útgerðarmanna á kvóta og þeim áhrifum sem ákvarðanir þeirra hafa á afdrif heilu byggðalaganna sé algerlega óviðunandi.
Það er hins vegar rétt að félagið hefði átt að vera meira sýnilegt á Djúpavogi síðustu tvo mánuði og fyrir það biðst ég afsökunar.
Grein Kristjáns er í heild sinni hér
Höfundur er framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags