Um heilsugæsluna í Fjarðabyggð
Mig langar til að fá að koma eftirfarandi á framfæri vegna greinar Eyjólfs Þorkelssonar unglæknis þar sem hann setur fram ýmsar fullyrðingar varðandi heilsugæsluna í Fjarðabyggð.Ég og eiginmaður minn störfuðum um árabil við heilsugæsluna í Fjarðabyggð og búum ásamt fjölskyldu okkar á Eskifirði þannig að mér er vel kunnugt um hvernig ástandið var og hvernig það er núna.
Þær fullyrðingar sem Eyjólfur setur fram um að heilsugæslan hafi ekki verið sameinuð í Fjarðabyggð eru rangar.
Í Fjarðabyggð eru og voru þrjár starfsstöðvar á Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði og á Eskifirði og var aðalstöðin þar vegna þess að þar var bestur tækjakostur, t.d voru teknar þar röntgenmyndir, þar var hjartasíriti, 24 tíma blóðþrýstingsmælir svo eitthvað sé nefnt.
Á svæðinu störfuðu þrír mjög reyndir læknar sem hittust vikulega á Eskifirði eða Fáskrúðsfirði og báru saman bækur sínar.
Læknarnir voru alltaf til skiptis á framvakt og þá annar á bakvakt þannig að alltaf var vaktþjónusta í Fjarðabyggð eftir því hvar vaktlæknirinn var staðsettur.
Það að fullyrða að HSA hafi undanfarin ár reynt að byggja upp heilsugæsluna í Fjarðabyggð er hrein móðgun við okkur íbúana sem höfum síðastliðin fimm ár þurft að líða fyrir aðgerðir þær sem fyrri stjórn HSA beitti læknana á svæðinu en til upprifjunar þá var tveimur læknum sagt upp árið 2009 og sá þriðji hrökklaðist í burtu.
Eyjólfi ætti að vera þetta vel ljóst þar sem að hann starfaði í stuttan tíma í Fjarðabyggð þegar þessar hörmungar riðu yfir.
Síðan verð ég að draga í efa góðan ásetning HSA þegar á Eskifirði er búsettur sérfræðingur í heimilislækningum með 30 ára reynslu og mikla endurmenntun en hann fær ekki að vinna heima hjá sér en má vinna alls staðar á landinu og á Norðurlöndunum.
Það nú þannig að fólki er frjálst að velja sér heimilislækni og hafa mjög margir Fjarðabúar Hannes Sigmarsson sem sinn heimilislækni og hefur það komið sér mjög vel fyrir marga.
Málarekstur fyrrverandi stjórnar HSA á hendur fyrrverandi yfirlækninum hefur kostað samfélagið tugi milljóna og valdið ólgu og miklum óþægindum hér í Fjarðabyggð þar sem að var áður góð heilsugæsla og fólk gat leitað með öll sín mál til lækna sem þekktu það og voru hluti af samfélaginu.
Hefði mátt nota þetta fjármagn til að byggja upp öfluga heilsugæslu í Fjarðabyggð.
Það að gera heilsugæsluna á Reyðarfirði að aðalstöð er ekki nýtilkomin hugmynd, læknarnir sem störfuðu í Fjarðabyggð höfðu oft komið fram með þessa tillögu frá 2006 til 2008 en þáverandi stjórn HSA vildi ekki frekari sameiningu.
Við stjórnarskipti hjá HSA vöknuðu vonir í brjósti okkar Fjarðabúa um að með nýjum mönnum kæmu nýir siðir og að þetta fólk myndi hlusta á íbúana og koma til móts við óskir þeirra, eins höfðu aðilar í bæjarráði Fjarðabyggðar fullyrt í kosningabaráttunni 2010 á hinum ýmsu fundum að þeir myndu gera allt til þess að fá fyrrverandi yfirlækninn aftur til starfa.
Höfundur er íbúi á Eskifirði