Stækkun heilsugæslunnar á Reyðarfirði

Ragnar Sigurdsson juni14 exaglEyjólfur Þorkelsson, læknir við HSA, skrifaði mjög fína og þarfa grein hér á Austurfrétt þann 26. maí sl. undir yfirskriftinni: Ég vildi að ég þyrfti ekki að fara til vinnu í Fjarðabyggð. Greinin vakti mikla athygli íbúa en efni hennar kom yfirstjórn HSA ekki á óvart enda hafa læknar, bæði fastráðnir og afleysingalæknar, kvartað sárlega yfir vinnuaðstæðum í heilsugæslu Fjarðabyggðar á undanförnum árum.

Vinnuaðstæður

Í Fjarðabyggð eru reknar fimm heilsugæslustöðvar; á Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði, Eskifirði og í Neskaupstað. Opnunartími þeirra er misjafn en allar eiga þær það sameiginlegt að vera einmenningsstöðvar, að Neskaupstað undanskildum sem býr við nálægð og samlegðaráhrif Umdæmissjúkrahúss Austurlands. Það er því heilmikið til í því hjá Eyjólfi þegar hann segir að í Fjarðabyggð starfi heilsugæslustöðin „eins og þrjú einmenningshéruð með sameiginlega vakt. Ungum læknum í dag finnst almennt ekki eftirsóknarvert að starfa í einmenningshéraði – þeir koma, þeir sjá, þeir fara" segir Eyjólfur. Þetta er vandi sem við glímum við og það verður æ háværari krafa að starfa í teymi, sérstaklega á stöðum þar sem mikið er að gera og fyrirsjáanlegt að vinnuálag muni aukast.

Fólksfjölgun hefur verið mikil í Fjarðabyggð, sérstaklega á Reyðarfirði. Þegar núverandi heilsugæslustöð á Reyðarfirði var tekin í notkun í janúar 2004 voru íbúar þar 623 talsins skv. tölum Hagstofunnar í árslok 2003. Í dag eru íbúar Reyðarfjarðar 1144. Auk mikillar fólksfjölgunar þjónustar HSA einnig stóra vinnustaði á svæðinu í samræmi við þjónustusamninga. Það gefur því augaleið að álagið á heilsugæslustöðinni hefur aukist til muna og vinnuaðstæður þar eru orðnar ófullnægjandi. Húsnæðið sem nú hýsir heilsugæslustöð Reyðarfjarðar var byggt þegar samningar um stóriðju höfðu ekki verið undirritaðir og öllum var kunnugt um að ef til þess kæmi þyrfti að stækka stöðina. Í forathugun sem gerð var í desember árið 2004 um viðbyggingu á húsnæðinu kom fram að stöðin væri of lítil og fyrirsjáanlegt að uppbyggingaráformin í kjölfar álvers myndu auka enn frekar á vandann. Frumathugun leiddi því í ljós að mikilvægt væri að hefja undirbúning að stækkun sem allra fyrst þar sem núverandi heilsugæslustöð gæti aldrei þjónustað Reyðarfjörð enda byggð með það fyrir augum að þjónusta 600 manna samfélag.

Viljayfirlýsing HSA og Fjarðabyggðar

Í umræddri grein Eyjólfs segist hann vita til þess að HSA hafi margítrekað þann vilja sinn að stækka heilsugæslustöðina á Reyðarfirði en lítið hafi þokast til og spyr hann því hvað veldur og hvort bæjarstjórn Fjarðabyggðar geti upplýst um það.

Svo öllu sé haldið til haga og upplýst sé hvaða vinna hefur verið lögð í málið að undanförnu þá er það rétt að HSA hefur unnið að þessu í mörg ár eða allt frá því að þarfagreining fór fram árið 2004. Fyrir tæpu ári síðan fór undirritaður á fund með bæjarráði Fjarðabyggðar sem svæðisstjóri HSA en þá hafði þáverandi framkvæmdastjóri lækninga HSA lagt til að ég myndi reyna að þoka málinu áfram. Á þeim fundi var þessum fyrirætlunum vel tekið og mér ásamt bæjarstjóra Fjarðabyggðar falið að vinna saman að undirbúningi að viljayfirlýsingu. Sú viljayfirlýsing var undirrituð þann 28. júní árið 2013 og send þá nýkjörnum þingmönnum kjördæmisins í þeirri von að stækkunin kæmist á fjárlög.

Gagnkvæmur vilji

Drögin að viljayfirlýsingunni fengu efnislega umfjöllun hjá bæjarráði og bæjarstjórn Fjarðabyggðar og var í kjölfar þess undirrituð af forsvarsmönnum HSA og Fjarðabyggðar. Í viljayfirlýsingunni kemur fram að báðir aðilar telji brýnt að hefjast handa við að stækka heilsugæsluna til að mæta umræddri íbúaþróun og tryggja íbúum viðunandi heilbrigðisþjónustu. Í yfirlýsingunni kemur einnig fram umrætt vandamál sem Eyjólfur kemur inn á og kallar einmenningsheilsugæslu, en í yfirlýsingunni segir að tilgangur stækkunar sé jafnframt sá að stuðla að aðlaðandi vinnustað með öflugri heilsugæslumiðstöð á Reyðarfirði. „Þannig yrði hægt að stuðla að því að tryggja mönnun og nýliðun í heilsugæslu Fjarðabyggðar til framtíðar, fremur en að halda áfram að byggja á þremur einmennings læknisstöðvum. Stór stöð skapar starfsfólkinu betri starfsskilyrði með aukinni samvinnu og teymisvinnu sem skilar sér í betri og faglegri þjónustu. Jafnframt eykur slík teymisvinna tækifæri til kennslu starfsnema í heilbrigðisfræðum. Slík kennsla reynist vera árangursrík leið til þess að afla nýrra starfskrafta á aðlaðandi vinnustað," segir í sameiginlegri viljayfirlýsingu HSA og Fjarðabyggðar.

Þjónusta í kjölfar stækkunar

Af hverju á Reyðarfirði? Þessi spurning heyrist reglulega þegar stækkun ber á góma. Svarið við þeirri spurningu er einfalt. Núverandi stöð á Reyðarfirði er löngu sprungin og þegar árið 2004 var Reyðfirðingum heitið því af yfirvöldum að núverandi stöð yrði stækkuð, yrði af uppbyggingaráformum. Nú hefur uppbygging undanfarinna ára átt sér stað með viðvarandi fólksfjölgun en ekkert hefur gerst í stækkun heilsugæslunnar. Þjónusta við Alcoa hefur aukist auk þess sem Reyðarfjörður er miðsvæðis í Fjarðabyggð og myndi gagnast Eskifirði og Fáskrúðsfirði best sem heilsugæslumiðstöð. Heilsugæslan á Fáskrúðsfirði og Eskifirði myndi eflast og þar yrði veitt betri þjónusta þar sem stöðugleika yrði náð í mönnun með tilkomu aðlaðandi starfsumhverfis. Um þetta virðast þeir læknar sem komið hafa til afleysingar og fastra starfa hjá HSA verið sammála.

Það stendur ekki til að loka heilsugæslunni á Eskifirði og Fáskrúðsfirði í kjölfarið. Þjónustan mun vissulega breytast en í þá átt að allir ættu kost á að sækja áfram „heilsugæsluþjónustu í sinni heimabyggð með öflugu stuðningsneti sem gerð yrði út frá heilsugæslumiðstöðinni á Reyðarfirði" eins og segir í umræddri viljayfirlýsingu. Til að gefa einhverja hugmynd um hvernig þjónusta gæti verið út frá móðurstöð á Reyðarfirði er „gengið út frá því að megin þungi læknismóttöku og vaktþjónustu verði á Reyðarfirði en dagþjónusta lækna skerðist ekki í öðrum byggðakjörnum, en þar hafi hjúkrunarþjónustan þó meira vægi með öflugri og faglegri heilsuvernd" eins og segir í viljayfirlýsingunni.

Ég á ekki von á öðru m.t.t. þeirra undirtekta sem viljayfirlýsingin hefur fengið að skriður komist á stækkun heilsugæslunnar á Reyðarfirði þannig að þar verði heilsugæslumiðstöð og viðunandi starfsaðstæður í náinni framtíð. Eyjólfur og aðrir læknar mega vera vissir um að HSA lítur ekki svo á að núverandi aðstæður séu til langframa.

Höfundur er svæðisstjóri hjá HSA.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.