Reykjavíkurflugvöllur

Hörður HafsteinsÓlafur Magnússon fyrrverandi borgarstjóri hvatti á sínum tíma í sjónvarpinu til þess að borgarbúar létu í sér heyra varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar, hvort hann ætti að vera eða fara. Undirritaður hefur verið starfandi sem flugmaður í áætlunarflugi, leiguflugi og sjúkraflugi síðan árið 1973 og hefur á þeim tíma flogið þúsundir klukkustunda innanlands og millilandaflug og telur sig þekkja landið mjög vel hvað varðar flugaðstæður hér um bil á öllum flugvöllum landsins. Til þess að gera langt mál stutt er enginn staður í nágrenni Reykjavíkur sem veðurfarslega og landfræðilega er nothæfur til þess að búa til nýjan flugvöll.

  Fyrir 2-3 árum bað flugvallarstjóri nokkra flugmenn sem hann taldi að myndu þekkja land og veðuraðstæður vel í nágrenni Reykjavíkur að gera tillögur um staðsetningu flugvallar ef flugvöllurinn yrði fluttur. Undirritaður var í þessum hópi og voru hópnum gefnar fimm tillögur til þess að vinna með.

1. Flugvöllurinn yrði áfram í Reykjavík
2. Flugvöllurinn yrði undir Hafnarfjalli
3. Flugvöllurinn yrði á Hólmsheiði
4. Flugvöllurinn yrði í hrauninu ofan við Hafnarfjörð
5. Innanlandsflugið færi til Keflavíkur

Ef undirritaður byrjar að tala um staðsetningu undir Hafnarfjalli, þá er vonlaust að hafa þar flugvöll sökum þess veðurfars sem þar er ansi oft og ekki hægt að gera blindaðflug vegna nágrennis fjalla.

Hólmsheiði: Þar er ekki fræðilegur möguleiki að hafa flugvöll vegna veðurfars og landslags þar sem ekki yrði hægt að fljúga blindflug inn á flugvöll sem þar væri staðsettur.
Til að nefna smá dæmi: Veðurfræðingur sagði frá veðrinu og tók þá fram að fyrir dálitlu síðan var rétt hægt að lenda í Reykjavík vegna lélegs veðurs, sem hefði þýtt að ólendandi hefði verið á heiðinni. Meira að segja veðurfræðingurinn tók það fram að hefði flugvöllur verið kominn á heiðina hefði ekki verið hægt að lenda þar eða fara í loftið sökum veðurs, en á sama tíma hefðu um 200 lendingar og flugtök verið í Reykjavík.

Hraunið fyrir ofan Hafnarfjörð: Þar eru austan-, suðaustan-, sunnan- og suðvestanáttir kolvitlaus veður til að treysta á að alltaf sé hægt að fljúga þar inn á flugvöll sem þarna væri. Einnig er fjallgarður sem liggur austur-vestur sem hindrar blindaðflug á þennan stað.

Flugvöllurinn til Keflavíkur: Einfalt mál: innanlandsflugið verður drepið. 

 Undirritaður og fjöldinn allur af öðrum flugmönnum hafa rætt þetta mál við fólk úti á landi með þá spurningu að leiðarljósi „Hvað gerist ef flugvöllurinn yrði færður til Keflavíkur“? Það er svo til einróma álit fólksins að það myndi hætta að nota innanlandsflugið vegna þess að ferðatíminn yrði svo miklu lengri að það yrði fljótara að aka „suður“ og geta notað bílinn í Reykjavík til útréttinga og aka síðan aftur heim.
Íbúar í Vestamannaeyjum sögðu það sama, en nú eru þar að verða breyttir tímar þar sem ferjan er að fara að sigla upp í Bakkafjöru, sem auðveldar öll samskipti við fasta landið. Það helsta sem fólkið segir við okkur „Er þessi flugvöllur ekki völlur allra landsmanna???

 Af hverju geta örfáir íbúar Reykjavíkur ráðið því hversu auðveldan aðgang fólkið úti á landinu hafi að höfuðborginni??? Til þess að fá rétta mynd á þessa umræðu ætti að kjósa aftur og þá á öllu landinu. Þá myndi nú heldur betur annað koma í ljós. Það er vitandi að meirihluti Reykvíkinga eru sammála því að hafa flugvöllinn áfram þar sem hann er. Látið nú reyna á það og kjósið aftur!!! Það er ekki nokkur leið að finna betri staðsetningu á flugvellinum annars staðar.

Annað sem vantar svo gott verði betra er að það þarf að lengja austur-vestur flugbrautina til vesturs svo stærri vélar gætu lent í Reykjavík.

Víða út í löndum er þessu öfugt farið. T.d. í London. Þar var nýr völlur byggður inn í miðri borginni til þess að auðvelda almenningi aðgang að allri þjónustu sem ansi oft er í miðkjarnanum eins og er hjá okkur í Reykjavík.
Undirritaður hefur sjálfur verið mikið í skjúkraflugi og þar hefur hann séð hve oft er stutt á milli lífs og dauða. Þyrlur eru ekki nothæfar nema að hluta til í sjúkraflugi þar sem þær fljúga ekki blindflug og í vondum veðrum verða þær að fylgja ströndum. Ef fara á í sjúkraflug norður í land og veður er slæmt er flugvélin betri kostur, þar sem hún flýgur mikið hraðar, og beina línu á staðinn í blindflugi, en þyrlan yrði að taka krók með ströndum og tæki þar af leiðandi mikið lengri tíma.

Á fólk úti á landi að eiga minni lífslíkur en fólk í Reykjavík ef slys eða veikindi verða?

Ef flugvélin yrði að lenda í Keflavík: Ef það er sjúklingur innanborðs þyrfti að byrja á því að keyra til Reykjavíkur með kannski lífshættulega slasaðan mann. Ef um líf eða dauða er að tefla gætu munað þessum flugtíma og akstri frá Keflavík.

Fluggeirinn og landsbyggðin treystir nú á nýja borgarstjórn að forða því að hér verði alvarlegt menningarslys.

Nú er áskorun til nýrrar borgarstjórnar að drífa í því að taka ákvörðun um að flugvöllurinn verði áfram á sínum stað svo hægt verði að hefja fyrir alvöru uppbyggingu vallarins í Vatnsmýrinni.

Íbúar og bæjarfélög á landinu: Látið nú heyra í ykkur og kveðið nú niður þennan draug sem er að leggja niður Reykjavíkurflugvöll, því enginn veit betur en þið sem búið úti á landi hversu nauðsynlegt er að komast strax undir læknishendur ef um veikindi eða slys er að ræða.

Þá skiptir hver mínúta máli!

Hörður Hafsteinsson
flugmaður

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar