Reykjavíkurflugvöllur og raunsæi
Í frumvarpi til laga er nú lagt til að skipulagsvald á Reykjavíkurflugvelli verði fært frá Reykjavíkurborg til Alþingis. Þetta er nokkuð róttæk hugmynd, enda mætti á grundvelli sjónarmiða sem liggja að baki frumvarpinu færa rök fyrir að skipulagsvald ætti að vera hjá ríkinu á mun fleiri svæðum. Það væri varhugaverð þróun. Málið kallar á skoðun á réttindum og skyldum sem fylgja skipulagsvaldi og hvaða takmörkum það sætir.Skyldur sem fylgja skipulagsvaldi, koma m.a. fram í því að ef nýtt skipulag felur í sér að byggingar og mannvirki sem standa í skjóli fyrri skipulagsákvarðana skuli víkja, ber sveitarfélag ábyrgð á að bæta það tjón sem eigandi mannvirkjanna verður fyrir. Um þetta má vísa til 50. og 51. gr. skipulagslaga um eignarnám og um bætur vegna skipulags og yfirtöku eigna.
Takmörk skipulagsvalds koma jafnframt fram í ákvæði 50. gr. skipulagslaga um eignarnám. Sveitarfélag getur þannig ekki tekið landsvæði og mannvirki eignarnámi, nema með leyfi ráðherra og að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar. Takmörk valdsins koma einnig fram með þeim hætti að staðfesta þarf skipulag af stjórnvöldum ríkisins.
Hugmyndir um röskun Reykjavíkurflugvallar og nauðsynlegrar aðstöðu sem honum fylgir, verður að skoða í ljósi ábyrgðar Reykjavíkurborgar á tjóni ríkisins. Færa má fyrir því rök að verðgildi Reykjavíkurflugvallar, verði einungis bætt með flugvelli af sömu gæðum, bæði hvað varðar lendingaraðstæður og fjarlægðir. Verðmiði Reykjavíkurflugvallar fyrir íbúa Reykjavíkurborgar er því sem næst byggingarkostnaður nýs flugvallar á Lönguskerjum, enda verður mannvirkið engan vegin bætt að fullu með uppbyggingu annars staðar. (Þetta hef ég fjallað um áður í grein, dags. 19.6.2013)
Það er því væntanlega samviskuspurning stjórnmálamanna í Reykjavík hvort þeir haldi mögulegum kostnaði borgarinnar að kjósendum við umfjöllun um niðurlagningu flugvallarins. Hreinskiptin umræða um þessa stöðu, t.d. fyrir borgarstjórnarkosningar, er nauðsynleg svo greina megi raunverulegt fylgi Reykvíkinga við tillögur um niðurlagningu flugvallarins. Þá væri sanngjarnt gagnvart kjósendum að annar valkostur yrði kynntur sem væri framtíðarsýn um myndarlega uppbyggingu mannvirkja á flugvallarsvæðinu.
Ef borgarstjórn teldi sig hafa pólitískt umboð til að bæta Reykjavíkurflugvöll fullum bótum og vildi hreyfa við málinu, reynir á takmörk skipulagsvaldsins. Vilji sveitarfélag hrinda nýju skipulagi í framkvæmd, sem felur í sér að mannvirki í eigu annarra skuli víkja, þarf sveitarfélag að fá heimild ráðherra til eignarnáms. Þetta gildir ef ekki nást samningar við eiganda mannvirkis. Um eignir ríkisins gildir 40. gr. stjórnarskrár, sem áskilur að fasteignir og afnotaréttur þeirra verður einugis látinn af hendi á grunni heimildar í lögum. Reykjavíkurflugvöllur verður því aðeins látinn af hendi með samþykki Alþingis.
Sú hugmynd að Reykjavíkurborg geti tekið Reykjavíkurflugvöll eignarnámi í óþökk ríkisins er nokkuð fjarstæðukennd. Ráðherra getur ekki heimilað eignarnám á flugvallarsvæði á grundvelli almennrar lagaheimildar, þegar sú ákvörðun væri í ósamræmi við ályktanir Alþingis um samgönguáætlun og landsskipulagsstefnu, sem hefðu skýra lagastoð.
Takmörk skipulagsvalds og vottur af raunsæi varpa ljósi á að ákvörðun um niðurlagningu Reykjavíkurflugvallar verður ekki tekin á vettvangi borgarmála í Reykjavík. Ákvörðun um það er nú á forræði Alþingis.
Samþykkt sérstakra laga um skipulagsvald á flugvallarsvæðinu er því óþörf til að tryggja legu flugvallarins. Framkomið frumvarp dregur athygli frá þessu meginatriði. Umfjöllun um flugvallarmálið getur þó verið gagnleg ef sjónir borgaryfirvalda beinast að því að bæta framkvæmd skipulagsmála á svæðinu á þeirri raunsæju forsendu að flugvöllurinn standi.
Höfundur er hæstaréttarlögmaður