Afléttum -hver í sínu horni-- ástandi

Leiðari Austurgluggans 30. október 2009:

 

Fram kom hér í blaðinu fyrir skömmu að nú virtist sem þeirri ,,ánauð“ væri létt af fólki að verða að mæta á hvern einasta viðburð í sínu sveitarfélagi, en ella bera ábyrgð á því að viðkomandi viðburður yrði aldrei endurtekinn aftur.

austurglugginn.jpg

Framboð afþreyingar væri slíkt að byggði fremur upp valkvíða en að um einhverja fábreytni væri að ræða. Þessu hef ég verið að velta fyrir mér undanfarið.

 

Mér finnst ég skynja endurnýjaðan kraft samhyggðar í samfélaginu, kraft sem til dæmis fær fólk á ný til að leggja sjálft að mörkum í félagslífi, í stað þess að vera eilífir þyggjendur. Þátttakan sem slík, að vera hluti af hóp, er mikils virði fyrir hvern einstakling.  Svo er það þetta með að mæta á viðburði. Sérstaklega viðburði þar sem samborgarar manns hafa lagt talsvert í sölurnar til að glæða menningarlíf viðkomandi svæðis. Allur gangur er á mætingu. Oftar en ekki er hún samt við sársaukamörk. Þeir sem standa að viðburðum missa jafnvel móðinn og finnst framlag sitt lítils virt af umhverfinu.

Við þurfum kannski sum hver að taka til í okkar ranni þarna. Án þess að um nauð af einhverju tagi sé að ræða, er það ákveðin samfélagsrækt að stunda þá viðburði (ekki uppákomur – burt með þetta ljóta og leiða orð úr málinu!) sem í boði eru. Og eins og ágæt manneskja í markaðsmálum ferðaþjónustunnar sagði ekki alls fyrir löngu, hvernig í ósköpunum dettur okkur í hug að einhverjir utan Austurlands kæri sig eitthvað um að koma og sækja viðburði sem við sækjum ekki sjálf né sýnum áhuga? Þarna voru orð í tíma töluð.

Með því að leggja rækt og alúð við framtak okkar eigin fólks í menningar- og afþreyingarmálum rennum við traustari stoðum undir frekara framhald. Með því að taka sjálf þátt í viðburðum í samfélagi okkar, eflum við samfélagið og bætum eigin líðan. Á Austurlandi er sprúðlandi menningar- og uppbyggingarstarf sem er allrar athygli vert og viðburðir það fjölbreyttir að hver og einn ætti að geta fundið eitthvað sem bragð er að.

  

Maður er manns gaman og eins og Palli komst að þegar hann var aleinn í heiminum, er lítið gaman að lífsins lystisemdum ef maður getur ekki deilt þeim með öðrum.

 

Steinunn Ásmundsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar