Austfirðingar sækja Þjóðfund
Á morgun verður efnt til þjóðfundar í Laugardalshöllinni þar sem glímt verður við brýn úrlausnarefni íslensku þjóðarinnar á óvissutímum. Til fundarins er stefnt rúmlega 1200 manns, sem telst marktækt úrtak íslensku þjóðarinnar. Þjóðfundurinn er framtak þjóðarinnar sjálfrar og sameign hennar. Eskfirðingurinn Sindri Snær Einarssonar er meðal þeirra Austfirðinga sem sækja munu fundinn. Fylgjast má með framvindu fundarins á vefnum www.thjodfundur2009.is.
Sindri Snær er varaformaður Landssambands æskulýðsfélaga og situr í ráðgjafarnefnd Sambands íslenskra framhaldsskólanema. Hann segist spenntur að sjá hvernig gangi að fá 1200 manna fund til að stilla saman strengi. Hann finni gríðarmikinn áhuga hjá ungu fólki fyrir fundinum, svo mikinn að það hafi í raun komið honum á óvart. ,,Fundurinn er marktækt úrtak íslensku þjóðarinnar og fáist sameiginleg niðurstaða um gildi og markmið verður erfitt annað fyrir leiðtoga þjóðarinnar og aðra en að virða það og taka upp á sína arma,“ segir Sindri Snær. ,,Ég mæti með galopnum huga til fundarins og niðurstöður hans hljóta að gefa sóknaráætlun fyrir Ísland meðbyr.“
Skipuleggjendur þjóðfundarins segja heilbrigða og eðlilega framfaraþróun íslensks samfélags einungis mögulega með sameiginlegu átaki og innsæi þjóðarinnar. ,,Með Þjóðfundi viljum við virkja þessa krafta og færa þjóðinni verkfæri til endurreisnar á nýjum grunni byggð á sameiginlegum lífsgildum og framtíðarsýn. Við leggjum vinnu okkar í þágu þjóðar og málstaðar fram án endurgjalds. Við leggum áherslu á að Þjóðfundurinn er og verður sameign þjóðarinnar og enginn aðili getur öðrum fremur eignað sér heiðurinn af honum. Við byggjum á skýrum grunngildum til að tryggja grundvöll að árangri, samstöðu og varanleika.“
Fundurinn er ekki hefðbundinn framsögu eða umræðufundur í ætt við pólitíska fundi eða þá borgarafundi sem haldnir hafa verið á undanförnum mánuðum. Þess í stað verður þátttakendum skipt niður í hópa sem starfa saman allan fundartímann. Umræðustjórar tryggja samræmi í aðferðafræði og árangursríkar umræður.
Dagskrá þjóðfundar á morgun;
09:00-Nýja Laugardalshöll opnar fyrir Þjóðfundargesti – Skráning
09:45-10:00-Fólk kynnist á borðum
10:00-10:45-Dagskrá hefst - Gildi
11:00-12:15-Framtíðarsýn
12:15-13:00-Hádegismatur.
13:00-13:55-Níu þemu
14:05-14:25-Sérhæfing borða
14:25-14:40-Kaffihlé
14:40-15:30-Unnið með þema, drög að markmiðum
15:30-15:50-Framtíðarsýn: Markmið sett fram
15:50-16:30 -Lok þjóðfundar, skemmtiatriði og íslensk kjötsúpa
18:00-Þjóðfundi lokið
Afurð fundarins verður framtíðarsýn byggð á skýrum sameiginlegum grunngildum. Að auki eru skilgreindar áherslur, markmið og verkefni sem nauðsynleg eru til þess að tryggja skilvirkan farveg fyrir þær breytingar og aðgerðir sem ráðast þarf í. Fundurinn markar upphaf þess að móta nýtt líkan sem bregst við áðurnefndum kaflaskilum í þróun samfélagsins. Í kjölfar hans verður ráðist í markvissar aðgerðir sem byggjast á niðurstöðum hans. Fundurinn mun einnig kalla fram áframhaldandi umræðu sem miðar að því að þróa niðurstöðurnar áfram til heilla fyrir land og þjóð.
Árangur af þjóðfundi og því endurreisnarstarfi sem á eftir fylgir hvílir á tilteknum meginþáttum sem mikilvægt er að halda til haga: Að virkja gerjunina og kraftinn sem er að finna um allt samfélagið nú þegar. Að tryggja flæði milli fortíðar, nútíðar og framtíðar þannig að eðlilegt tenging sé milli þess sem var með uppgjöri við fortíðina og þess sem verður út frá nýju upphafi. Horft verði til lengri tíma án þess að gleyma því að skammtímasjónarmið eru mikilvæg til þess að fást við yfirstandandi erfiðleika. Að skapa öflugar tengingar milli meginstoða samfélagsins svo sem stofnana, fyrirtækja, hagsmunahópa, stjórnmálaafla og fagaðila, og sameina þannig krafta ólíkra aðila. Síðast en ekki síst er mikilvægt að tryggja eftirfylgni og framkvæmd ákvarðana, en þetta næst fram með því að þeir sem bera formlega ábyrgð á einstökum sviðum samfélagsins sameinist um að styðja verkefnið og tryggja nauðsynlegum aðgerðum brautargengi. Þarna er átt við aðila einsog alþingi, ríkisstjórn, hagsmunasamtök og fleiri.
Órjúfanlegur hluti þjóðfundarverkefnisins er að skipuleggja markvisst 52 vikna ferli þar sem í hverri viku verður lagður steinn í hleðsluna. Um leið verður unnið ötullega að samstillingu allra þeirra afla sem geta breitt út umræðuna og staðið fyrir eða stutt aðgerðir til jákvæðrar þróunar. Meginatriðið verður samt ævinlega að sjálf framkvæmd breytinganna verði á ábyrgð þjóðarinnar.
Í undirbúningshópi Þjóðfundar er fólk sem er tengt víðtæku neti grasrótarsamtaka, stjórnmála og atvinnulífs en hefur einnig þekkingu og reynslu af framkvæmd viðburðar af því tagi sem um ræðir.