Skip to main content

Austurland mekka karnivalsins

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.18. nóvember 2009

 

Hugmynd er uppi á Austurlandi um að stofna séraustfirskan karnivalhóp sem myndi prýða allar bæjarhátíðir fjórðugnsins í framtíðinni og þannig mynda samnefnara fyrir þær. Slíkur karnivalhópur gæti einnig farið víðar um á Íslandi. Engin hefð er fyrir karnivölum hérlendis, nema ef vera kynni litrík ganga samkynhneygðra á hverju ári.

fidget_feet.jpg

Lára Vilbergsdóttir og Guðjón Sigvaldason fóru fyrir skömmu til írska bæjarins Clifden í Connemara á Vestur-Írlandi á 14 daga bæjarhátíð sem svipar til Ormsteitis. Lára og Guðjón unnu þar með karnivalhóp í eina viku, en írskt karnivalfólk hefur einmitt komið að undirbúningi karnivalskrúðgöngu Ormsteitis sl. tvö ár.

Lára segir drauminn vera að stofna kraftmikinn austfirskan karnivalhóp sem geti farið milli bæjarhátíða á Austurlandi. ,,Hugmyndin er að byggja upp stóran karnivalhóp á Austurlandi sem kæmi upp grunnbúnaði sem nýst gæti öllum bæjarhátíðum,“ segir Lára. ,,Hægt væri að fara svo dæmi sé tekið á Borgarfjörð og virkja samfélagið þar í að búa til álfaþema og sauma búninga, en við kæmum með grunnbúnaðinn, þ.e. uppblásnar skreytingar og álfaþemað væri sett þar við. Næst væri svo kannski hægt að fara á Fáskrúðsfjörð og virkja franska hefð. Svona mætti áfram telja. Eftir einhver ár yrði  hægt að búa til eina stóra Austfjarðagöngu. Allir myndu græða á þessu og Austurland verða mekka karnivalanna á Íslandi.“

Verkefnið er eins og stendur samstarf Ormsteitis og Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs.

 Loftfimleikar í vor 

Með Írunum sem komu með karnivalfólkinu á Ormsteiti var loftfimleikahópurinn Fidget Feet Performance Co. -  Madam Silk. Hann hyggst koma til Austurlands með námskeið og sýningu á vegum Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs í vor og segir Lára það mikið tilhlökkunarefni.