Austurland verði eitt sveitarfélag
Þau miklu tímamót urðu í austfirsku sveitastjórnasamstarfi í dag að aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) samþykkti að vinna að því að Austurland, þ.e. svæðið frá Vopnafjarðarhreppi til Djúpavogshrepps yrði eitt sveitarfélag. Tillagan var samþykkt samhljóða. Þetta er tímamótaverkefni sem á sér ekki hliðstæðu á Íslandi.
Stjórn SSA var falið að skipa starfshóp sem hafi það meginverkefni að
fjalla um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna á starfssvæði SSA í eitt
sveitarfélag. Starfshópurinn á innan árs að skila tillögum að stjórnkerfi nýs
sameinaðs sveitarfélags, leita eftir samvinnu við ráðuneyti samgöngu- og
sveitarstjórnarmála um mögulega sameiningu, kanna vilja ríkisvaldsins til sameiginlegrar
stefnumörkunar um opinberar framkvæmdir og verkaskiptingu slíks sveitarfélags
og ríkisvaldsins og fjalla um þau áhrif sem tilkoma hins nýja sveitarfélags
hefði í för með sér fyrir austfirskt samfélag, með sérstakri áherslu á þau
tækifæri sem sköpuðust.
Sveitarstjórnarmaður sem Austurglugginn ræddi við eftir aðalfundinn sagði ljóst að miðstýring væri slík og ætti eftir að aukast, að sveitarfélög yrðu að sameinast til að hafa meiri slagkraft og sjálfræði um eigin mál.