Blessaður
Blessaður ert þú sem ekið hefur Öxi, -hvernig sem viðrar! Fegurðin er ómælanleg. Auk þess er þetta 60 km stytting á Hérað miðað við Fjarðaleiðina. Það takmarkaða fé sem í upphafi var veitt í gerð vegarins upp úr Berufirði hefur verið listilega nýtt, jarðröskun í lágmarki og einstök upplifun.Við endanlega gerð þessa vegar verður að vanda sig vel, valda sem minnstri röskun en gera öruggan veg sem er oftast fær. Í botni fjarðarins og uppi á heiðinni ætti að vera forgangsmál að ljúka hefðbundinni þjóðvegsgerð.
Öxi er dæmi um sífelldan ágreining Austfirðinga um allt. Fjarðabyggð fannst að öll áhersla ætti að vera á ströndina, þjóðveginn um Austfirði. Öxi væri engin lausn. Á Djúpavogi vildu auðvitað allir styttingu í nálægustu miðstöð og á Héraði var styrking Egilsstaða sem miðpunkts Austurlands mikið kappsmál. Breiðdælingar voru á móti þessu öllu því Breiðdalsheiði yrði í öllu falli útundan og þar með yrði minni snjómokstur frá Vegagerðinni í sveitinni! Seyðfirðingar og Borgfirðingar fylgdu svo Héraði af hliðarlínunni og Vopnfirðingar skiptu sér sem fyrr bara af sínum málum.
Allir sem sagt á móti öllum og ekkert gert áratugum saman þar til ráðherra sker á hnútinn og þetta er að fara á besta veg. Eins og við hefðum sjálf átt að sjá fyrir löngu. Ég tel að valdleysi samtaka sveitarfélaga á Austurlandi sé stór orsakavaldur í tregðu Austfirðinga til sátta. Allt sem samþykkt var á þingum SSA voru tilmæli eða ábendingar til stjórnvalda. Því fylgdi aldrei vald til að framkvæma og þess vegna þurfti aldrei neina niðurstöðu. Í sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi horfir þetta allt öðru vísi við, þar eru samþykktirnar framkvæmdar og því þarf niðurstöðu og sátt við afgreiðslu mála.