Þegar stórt er spurt

Leiðari Austurgluggans 18. september 2009:

 

Eitt höfuðmein okkar hér á Austurlandi er að mínu áliti ósamlyndi. Hér ríkja of víða styrjaldir; smáar í sniðum að vísu, en eigi að síður skæðar. Þær fara fram í bakherbergjum, eldhúskrókum, stjórnsýsluskrifstofum, í búningsherbergjum íþróttahúsa, á vinnustöðum, milli hreppa og sjoppum. Meðal annars.

austurglugginn.jpg

Tekist er á og vopnin til dæmis baktal, níð, holir hlátrar, útilokun og jafnvel lygar. Það að vinur sé sá er til vamms segir er tekið út yfir gröf og dauða.

Of mörg okkar krefjast þess að allir séu alltaf sammála okkur. Við líðum ekki fólki að vera á annarri skoðun og berjumst gegn því með oddi og egg. Við getum ekki haft nema einn veruleika, eina vídd og förum í skotgrafir ef bólar á fleirum. Reiði okkar er oft knúin af ótta og minnimáttarkennd. Við teljum hrós valda sjálfbyrgingshætti og förum því afar sparlega með það.

Eigum við að vera eins og Kristur og bjóða hinn vangann, eða eins og Che Guevara sem sagðist ólíkt Kristi berjast með þeim vopnun sem tiltæk væru og reyna að tortíma andstæðingnum í stað þess að láta negla sig á kross? Eða fara að lögmálum heimspekinnar og trúa á samræðuna? Setjast niður eins og siðað fólk og ræða málin uns hillir undir lausn sem viðunandi er fyrir flesta eða alla?

Ættum við kannski að reyna beina orku okkar hér á Austurlandi í sameiginlegan farveg fjórðungnum til heilla, í stað þess að glutra henni í ósamlyndi, hrepparíg, öfund, hneykslun, móðgun og annað einskis nýtt hjóm?

Og þegar upp er staðið, hvað er það þá sem raunverulega skiptir máli?

 

Kannske ætti SSA að senda frá sér ályktun um samstöðu allra Austfirðinga á aðalfundinum 24.-25. september.

 

Steinunn Ásmundsdóttir. Ósamlyndi er alltaf leitt.
Unnum friði og sáttum.
Við skulum ekki vilja neitt
en vera á báðum áttum.
 

(Höf. Þorsteinn Gíslason frá Kirkjubæ í Hróarstungu, 1867-1938).

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.