Þetta er eitthvað

gunnarg_web.jpgAð skrifa pistil er eins og að flytja mál fyrir dómi, kviðdómi lesenda. Þú hefur þrjú hundruð orð til umráða og ert síðan dæmdur: Beturvitrungur, húmoristi, leiðindapúki.

Eða er það eins og skrifa skólaverkefni? Þú veist ekkert hvað þú ætlar að taka fyrir en hnoðar einhverju saman á seinustu stundu til að sleppa við fall.

 

Hugmyndirnar hrúgast upp. Á ég að vera gáfulegur, nýta menntunina mína og útskýra forsetaræðið á Íslandi. Vísa í stjórnarskrána og tala um þingræðið sem ekki er það, heldur beina lýðræðið og vald forsetans.

Nei, nenni því ekki. Gerði það fyrir stjórnlagaþingið í haust.

Eða á ég að skrifa um Unglingalandsmótið. Benda á að lið UÍA geti orðið einingartákn Austurlands og liðið og mótshaldið séu frábært tækifæri til að sýna jákvæða ímynd Austurlands út á við.

Talandi um jákvæða ímynd. Á ég að segja mína hlið á fréttaumfjölluninni um jákvæða og neikvæða fréttaumræðu frá því um daginn? Spyrja hver það sé sem ákveði hvort frétt sé jákvæð eða neikvæð og fyrir hvern? Segja frá því að orðin á bæjarstjórnarfundinum í Fjarðabyggð hafi verið saklaus toppur á ísjaka og bæta við að austfirskir sveitarstjórnarmenn, embættismenn og fyrirtækjaeigendur hafi sent manni, misverðskuldað, tóninn og hótað að berja niður blaðið fjárhagslega með að auglýsa ekki í því eða segja því upp.

Nei, það væri bara til að ýfa upp mál sem reis upp og lognaðist út af á einni löngu liðinni viku.

Á ég að reyna að vera fyndinn? Ég get alveg verið það. Mér finnst ég oft fyndinn. En kannski móðga ég einhvern, svona eins og þorrablótsnefndirnar. Eða kannski mistekst mér að vera fyndinn, eins og Hringekjunni.

Og hvernig á fyrirsögnin að vera? Hún þarf að vera grípandi til að einhverjir fleiri lesi pistilinn en bara mamma því hún sér mynd af mér.

Bingó! Þrjú hundruð orð. Punktur. Seiva og senda.

Bless!

(Greinin birtist áður í 9. tbl. Austurgluggans 2011)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar