Þetta var ekki vinstri sveifla heldur breytingasveifla

Fyrir ári síðan var því haldið fram að í þjóðfélaginu væri vinstri sveifla og byggðu það á úrslitum þingkosninga þar sem Samfylking og Vinstrihreyfingin – grænt framboð fengu þingmeirihluta á meðan Sjálfstæðisflokkurinn galt afhroð. Kosningar annars staðar, til dæmis í háskólapólitíkinni, bentu í þá átt að ekki væri vinstrisveifla í gangi heldur breytingasveifla. Úrslit sveitarstjórnarkosninganna, meðal annars á Austurlandi, renna stoðum undir fullyrðinguna um breytingasveifluna. 

 

ImageMörg sveitarfélög fóru illa út úr efnahagshruninu. Farið var í mikla uppbyggingu, oft með erlendu lánsfé, í von um fjölgun íbúa. Eftir standa miskláraðar byggingar, tómir sjóðir og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga gægist inn um gluggana á bæjarskrifstofunum.

Á Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði falla meirihlutarnir. Í Fjarðabyggð tekur Sjálfstæðisflokkurinn, sem er í minnihluta, mann af meirihlutann og er stærsti listinn. Í öllum þessum sveitarfélögum var í aðdraganda kosninga tekist hart á um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna.

Svipuð dæmi má sjá víðar: Akureyri, Kópavogi, Reykjavík, Stykkishólmi, Hafnarfirði, Álftanesi og víðar.

Fólki er sama um ástæður og afsakanir. Það hegnir þeim sem voru við völd og tóku þátt í gullkálfsdansinum.

Þar sem staðan virðist góð, til dæmis á Vopnafirði, styrkist meirihlutinn. Nánast má tala um að minnihlutinn þar bíði afhroð.

Fall meirihlutanna þýðir að allir flokkarnir geta talað um að þeir hafi unnið. Horfið bara á umræður leiðtoganna. Þeir halda því allir fram að þeir séu sigurvegarar og geta virkilega fært rök fyrir því.

En tilgátan um vinstri sveifluna er ekki studd. Breytingasveiflan virðist staðreynd.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.