Þetta var ekki vinstri sveifla heldur breytingasveifla
Fyrir ári síðan var því haldið fram að í þjóðfélaginu væri vinstri sveifla og byggðu það á úrslitum þingkosninga þar sem Samfylking og Vinstrihreyfingin – grænt framboð fengu þingmeirihluta á meðan Sjálfstæðisflokkurinn galt afhroð. Kosningar annars staðar, til dæmis í háskólapólitíkinni, bentu í þá átt að ekki væri vinstrisveifla í gangi heldur breytingasveifla. Úrslit sveitarstjórnarkosninganna, meðal annars á Austurlandi, renna stoðum undir fullyrðinguna um breytingasveifluna.
Mörg sveitarfélög fóru illa út úr efnahagshruninu. Farið var í mikla uppbyggingu, oft með erlendu lánsfé, í von um fjölgun íbúa. Eftir standa miskláraðar byggingar, tómir sjóðir og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga gægist inn um gluggana á bæjarskrifstofunum.
Á Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði falla meirihlutarnir. Í Fjarðabyggð tekur Sjálfstæðisflokkurinn, sem er í minnihluta, mann af meirihlutann og er stærsti listinn. Í öllum þessum sveitarfélögum var í aðdraganda kosninga tekist hart á um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna.
Svipuð dæmi má sjá víðar: Akureyri, Kópavogi, Reykjavík, Stykkishólmi, Hafnarfirði, Álftanesi og víðar.
Fólki er sama um ástæður og afsakanir. Það hegnir þeim sem voru við völd og tóku þátt í gullkálfsdansinum.
Þar sem staðan virðist góð, til dæmis á Vopnafirði, styrkist meirihlutinn. Nánast má tala um að minnihlutinn þar bíði afhroð.
Fall meirihlutanna þýðir að allir flokkarnir geta talað um að þeir hafi unnið. Horfið bara á umræður leiðtoganna. Þeir halda því allir fram að þeir séu sigurvegarar og geta virkilega fært rök fyrir því.
En tilgátan um vinstri sveifluna er ekki studd. Breytingasveiflan virðist staðreynd.