Frestun þjóðaratkvæðagreiðslu?
Þegar rannsóknarnefnd Alþingis tilkynnti frestun á birtingu skýrslu sinnar um aðdraganda bankahrunsins virtist það ekki falla Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra í geð og sagði hann að rétt væri að fresta þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingu Alþingis á lögum um Icesave í því ljósi. Þá skoðun sína rökstuddi hann með því að benda á að skýrslan gæti verið upplýsandi fyrir þjóðina við ákvarðanatöku vegna málsins.
Þessi málflutningur Steingríms er ótrúverðugur í ljósi þess að það virtist engu skipta þó að þær upplýsingar hefðu ekki legið fyrir þegar Alþingi tók ákvörðun um málið. Raunar sagði hann að öll gögn varðandi það hefðu þá þegar legið fyrir og að ekkert nýtt myndi koma fram sem máli gæti skipt. Þar sem skýrslan kom ekki við sögu þegar Alþingi tók ákvörðun, er eðlilegt að hún teljist ekki nauðsynleg nú þegar þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram, enda er ekki verið að kjósa um hana heldur einungis um það hvort breytingar á lögum um Icesave eigi að ganga í gegn. Steingrímur hefur einnig bent á að nauðsynlegt sé að hraða úrlausn Icesave-málsins eins fljótt og nokkur kostur er. Þjóðaratkvæðagreiðslan er væntanlega liður í úrlausn þess en þó virðist ekki vefjast fyrir honum að fresta henni.
Heyrst hafa frá stjórnarheimilinu háværar raddir þess efnis að hætta beri við atkvæðagreiðsluna og að semja verði að nýju. Væntanlega vegna þess að þegar þjóðin synjar lögunum verður það pólitískt óþægilegt fyrir ríkisstjórnina. Ólíkt fjölmiðlalögunum, sem voru einhliða ákvörðun Alþingis, eru Icesave-lögin samkomulag á milli Alþingis annars vegar og Breta og Hollendinga hins vegar. Því er ekki hægt að draga þau til baka og hætta við þjóðaratkvæðagreiðsluna líkt og þá, nema ef að allir hlutaðeigandi samþykkja það.
Í 26. grein stjórnarskrár okkar Íslendinga segir að þjóðaratkvæðagreiðsla sem þessi, skuli fara fram „svo fljótt sem kostur er“. Það þýðir ekki svo fljótt sem það henti ríkisstjórninni pólitískt, heldur um leið og mögulegt er. Það sem þarf til að þjóðaratkvæðagreiðsla sé möguleg er sanngjarn tími til utankjörfundaatkvæðagreiðslu, en samkvæmt lögum skal hann að hámarki vera átta vikur, ekkert er þar sagt til um lágmark hans. Allur annar undirbúningur, s.s. prentun kjörseðla og undirbúningur kjörstjórna og kjörstaða, tekur mun skemmri tíma. Þar af leiðandi er augljóst að það að fresta þjóðaratkvæðagreiðslunni væri stjórnarskrárbrot enda er óheimilt að draga hana lengur en þörf er á.
Höfundur er varaformaður HíMA, félags hægrimanna í Menntaskólanum á Akureyri