Fyrirvaralaus lokun á fölskum forsendum

Ágætu landsmenn. Fyrir hönd margra íbúa sveitarfélagsins Fjarðabyggðar eru þessi orð sett á blað. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar staðfesti þann gjörning bæjarráðs að loka bæjarskrifstofunum á Norðfirði í desember. Ákvörðun þessari var haldið til streitu þrátt fyrir fjölmennan íbúafund sem haldinn var á Norðfirði föstudaginn 4.desember s.l. til að mótmæla lokun bæjarskrifstofunnar þar og vinnubrögðunum sem viðhöfð voru auk harðra mótmæla starfsmanna sem þar unnu.

 

aslaug_larusdottir.jpgÁhrifalausir bæjarfulltrúar úr tengslum við sitt samfélag

Í kjölfar íbúafundarins virtist sem hreyfing kæmi á bæjarfulltrúana og haldin var þá fundur meirihlutans en niðurstaðan varð þó sú að bæjarráð Fjarðabyggðar ákvað að standa við fyrri ákvörðun sína um lokun skrifstofu sveitarfélagsins í Neskaupstað þrátt fyrir hávær mótmæli íbúa þar. Eru bæjarfulltrúar Fjarðabyggðar orðnir úr tengslum við sitt samfélag og svo fjarlægir íbúunum að þeir endurspegla það ekki lengur? Hvað hefur gerst á líðandi kjörtímabili sem leiðir af sér jafn djúpa gjá milli yfirstjórnar eins bæjarfélags og íbúanna þar? Sveitastjórnarmenn í Fjarðabyggð, eins og annarsstaðar á landsbyggðinni hafa barist fyrir því að störf væru flutt frá Reykjavík í krafti tækninnar því í dag eigi ekki að skipta neinu máli hvar menn sitji við vinnu sína. Þá ekki síður að valdinu sé aðeins dreift á fáa staði á landinu. En hvaða fordæmi eru þá sett innan okkar sveitarfélags, þar þarf að miðjusetja alla stjórnsýslu á einum stað?.

Þá er ekki síður athyglisvert að skoða hvernig þessi ákvörðun um lokun kemur út gagnvart jafnrétti í sveitarfélaginu.

Samkvæmt tölum frá Hagstofunni búa tæp 35% kvenna í Fjarðabyggð á Norðfirði. Frá 1. janúar 2007 hafa 67 konur flutt lögheimili sitt til Norðfjarðar. Af þeim 11 starfsmönnum sem nú flytja vinnustöð sína eru 8 konur, með þessum flutningum er verið að fækka kvennastörfum á Norðfirði. Er það á skjön við það sem segir í Jafnréttisstefnu Fjarðabyggðar fyrir árin 2008-2012 sem aðgengileg er á vef Fjarðabyggðar (www.fjardabyggd.is ). Þar segir t.d. á bls. 2-3: „Fjarðabyggð sem vinnuveitandi - stuðlar að því að starfsmenn Fjarðabyggðar geti samræmt fjölskyldulíf og atvinnuþátttöku.” Það er voða gott að vera með laglega orðaða jafnréttisáætlun en ef ekki á að fara eftir henni, nema þá helst eftir stjórnunartitlum kynja (stýrur og stjórar) í skipuriti bæjarins, er eins gott að ómerkja það plagg. Þá hefur verið haldið á lofti meirihlutasamningi og fullyrt að hann kalli á breytingarnar en rétt er að skoða efni hans sem fjallar um stjórnsýslu. “Markmiðið er að öll stjórnsýsla sveitarfélagsins verði sameinuð á einum stað að sex árum liðnum en fyrr ef samgönguaðstæður breytast”. Engar breytingar hafa orðið á samgöngum og því ekkert sem ýtir á breytingar á stjórnsýslunni.

Raunveruleg ástæða lokunar

Lokun skrifstofunnar er sögð vera vegna leka á húsnæðinu, en öllum er ljóst að aðrar ástæður liggja að baki og helst þær að nú þurfi að spara peninga. sparnaðaraðgerða er þörf því góðærið er löngu búið og rúmt ár er liðið síðan flestir uppgötvuðu það. Ef stjórnsýsla Fjarðabyggðar og þróun hennar síðustu fjögur árin er skoðuð, má sjá að reksturinn hefur bólgnað út og ekki síst í yfirstjórn sveitarfélagsins. Á sama tíma og sveitarfélagið hefur lokið einhverju því hlutfallslega stærsta verkefni sem nokkuð íslenskt sveitarfélag hefur tekist á við. Sem dæmi má nefna fjölgun sviðsstjóra úr fjórum í níu. Auk þess dylst engum aukin kaup sveitarfélagsins á ýmiskonar sérfræðiþjónustu og segja má að þau kaup séu löngu komin út fyrir öll skynsemismörk og sérfræðingar „að sunnan” fengnir til að skoða hina ólíklegustu hluti.

Skýringa bæjarfulltrúa óskað

Í ljósi ofanritaðs er krafist hreinskilinna svara frá bæjarfulltrúum við eftirfarandi spurningum Hversu mikið hafa útgjöld yfirstjórnar Fjarðabyggðar aukist síðasta kjörtímabil í krónum talið ? Hversu mörgum stöðugildum hefur bæjarstjórn Fjarðabyggðar bætt við síðastliðinn fjögur ár í yfirstjórn og á umhverfis- og mannvirkjasviði? Er það rétt að á tímum kreppu og samdráttar hafi verið búin til og ráðið inn í nýja stöðu “sérfræðings” á fjármálasviði bæjarins, hvað kostar sú staða á ársgrundvelli og hvernig er sú ráðning útskýrð í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu?

Í upphafi skal endinn skoða

Öll framganga bæjaryfirvalda í þessu máli er til háborinnar skammar. Það vekur furðu hversu kjörnir fulltrúar allra flokka virðast ekki hafa dug í sér til að hafa áhrif. Óneitanlega veltir maður því fyrir sér hvernig fulltrúar sveitarfélagsins með bæjarstjórann í broddi fylkingar kjósa að fara inn í kosningavetur með þessum hætti það er bara óskiljanlegt. Maður spyr sig hvernig skildi sveitafélagið Fjarðabyggð koma út úr þessum húsnæðismálum. Þegar húsaleigumál bæjarskrifstofunnar í Neskaupstað verða til lykta leidd, situr það hugsanlega eftir með sárt ennið og þrátt fyrir allt þurfa að greiða húsaleigu margra ára auk annars kostnaðar hvar er þá sparnaðurinn?

Áslaug Lárusdóttir, Norðfirði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.