Gamla kirkjan á Eskifirði Sorgleg birtingarmynd góðærisins á Austfjörðum?
Þegar byrjað var að byggja stífluna við Kárahnjúka og síðar álverið á Reyðarfirði streymdi erlent og innlent vinnuafl austur á land. Á þeim tíma vantaði vissulega húsnæði fyrir allt þetta fólk og menn geystust fram á völlinn til að byggja ný hús og breyta gömlum.
Mörgum hnykkti við þegar sagt var frá því í fjölmiðlum að búið væri að afhelga gömlu kirkjuna á Eskifirði og hún væri til sölu á almennum markaði. Risið hafði nýtt glæsihýsi fyrir helgihald og menningarlíf á öðrum stað í þorpinu og ekki lengur þörf fyrir gamla guðshúsið.
Ýmsum mætum Eskfirðingum, öldnum sem ungum, brá og urðu þeir strax órólegir fyrir hönd gömlu kirkjunnar sinnar en ekkert varð til þess að koma í veg fyrir sölu hennar og var hún seld fyrirtæki sem hafði látið til sín taka í framkvæmdum fyrir austan um þessar mundir.
Þótt gamla kirkjan sé friðuð af Húsafriðunarnefnd ríkisins tókust nýju eigendurnir á hendur þá miklu ábyrgð sem fylgir því að eiga friðað hús, með þeim kvöðum og takmörkunum sem því fylgir, en ákváðu engu að síður að breyta því í íbúðir, væntanlega fyrir nýbúa vegna hins mikla uppgangs sem þá var á Austurlandi.
En allir vita hvað gerðist haustið 2008. Efnahagur þjóðarinnar hrundi, erlent vinnuafl hætti að streyma til landsins, offramboð varð á húsnæði fyrir austan sem og annars staðar, skortur varð á lánsfé og ekki lengur gróðavænlegt að standa í byggingaframkvæmdum. Og nú er gamla kirkjan á Eskifirði einnig að hruni komin. Í nokkur ár hefur hún staðið nánast opin og óvarin fyrir veðri og vindum. Byrjað var á því að fjarlægja allar innréttingar og innanstokksmuni og höggva sjálfar kirkjutröppurnar í spað. Og síðan hefur lítið gerst. Mikil er ábyrgð eigenda hennar og getur maður bara vonað að þeir skilji og skynji ábyrgð sína og forði þessu indæla, gamla húsi frá glötun, sem þeim auðvitað ber að gera.
Flestir eru sammála um að mikil menningarverðmæti séu fólgin í gömlum kirkjum víðs vegar um landið og mörg þorp og sveitarfélög eru svo lánsöm að margar af þessum byggingum hafa verið gerðar upp, öllum til yndis og ánægju. Þessi uppgerðu guðshús glitra eins og perlur í umhverfi sínu á meðan gamla kirkjan á Eskifirði stendur eins og veðraður, gamall skúr og bíður örlaga sinna. Hvers á hún að gjalda?
Nú á tímum kreppu og skipbrots lítillar þjóðar er mikilvægt að huga að raunverulegum verðmætum og gildum þessarar sömu þjóðar. Ég vona að eigendur kirkjunnar axli sína ábyrgð og komi í veg fyrir að kirkjan fari forgörðum. Eins furðar maður sig á því að sveitarfélagið og þjóðkirkjan sem og velunnarar kirkjunnar og áhugamenn um varðveislu gamalla húsa almennt skuli ekki láta málið til sín taka með einhverjum hætti. Ef siðferðislegar og lagalegar skyldur við andleg og menningarleg verðmæti þjóðarinnar duga ekki sem hvati má benda á að ferðamenn, sem eiga nú að bjarga fjárhag landsins, koma til að sjá gamlar, fallegar byggingar, ekki galtómar steinsteypublokkir og veðraða skúra. Það er því sama hvernig maður lítur á málið; gömlu kirkjunni á Eskifirði verður að bjarga.
Virðingarfyllst,
Hilda G. Birgisdóttir þýðandi