Glæsilegir sigrar
Fjarðabyggð vann mikilvægan sigur á HK á útivelli í dag í toppbaráttu 1. deildar karla. Huginn tryggði sér sæti í úrslitakeppni þriðju deildar og Höttur á að vera laus við fallbaráttuna eftir sigur á KS/Leiftri.
Jóhann Ragnar Benediktsson skoraði eina mark leiksins þegar Fjarðabyggð vann HK á Kópavogsvelli í dag. Markið kom á 63. mínútu en Jóhann skoraði með glæsilegu skoti úr vítateignum eftir fyrirghöf frá hægri. Eftir sigurinn er Fjarðabyggð með 32 stig, jöfn HK og tveimur stigum á eftir Haukum sem eru í öðru sætinu.
Höttur vann KS/Leiftur 2-1 á Vilhjálmsvelli. Stefán Þór Eyjólfsson kom Hetti yfir á tíundu mínutu með bylmingsskoti utan af velli og bætti við öðru marki úr vítaspyrnu skömmu fyrir leikhlé. Gestirnir minnkuðu muninn með marki úr víti rúmu kortéri fyrir leikslok. Þeir komust ekki nær enda var Höttur betri aðilinn í leiknum og fékk nóg af færum til að gera fyrr út um leikinn. Stefán Þór Eyjólfsson, fyrirliði Hattar, fékk sitt annað gula spjald fyrir mótmæli í uppbótartíma. Hann leikur ekki meira með liðinu í sumar en hann hann er á leið til Danmerkur í nám.
Huginn tryggði sér sæti í úrslitakeppni þriðju deildar karla með 2-5 sigri á Einherja á Vopnafirði. Staðan í hálfleik var 0-3. Leiknir tapaði 7-3 fyrir Völsungi.