Hafði hag af sölu Malarvinnslunnar til KHB

Fyrirtæki í eigu fyrrverandi framkvæmdastjóra Þróunarfélags Austurlands þáði 26 milljóna króna greiðslu við sölu Malarvinnslunnar til Kaupfélags Héraðsbúa haustið 2007. Ríkisútvarpið greindi frá þessu í svæðisfréttum sínum í dag.

Í frétt RÚV segir að í talsverðan tíma hafi verið uppi orðrómur um að aðkoma framkvæmdastjórans að sölunni hafi verið óeðlileg vegna þeirrar stöðu sem hann gegndi og á stjórnarfundi Þróunarfélags Austurlands 21. september síðastliðinn hafi hann verið spurður út í hlut Þróunarfélagsins í söluferlinu. Þar hafi komið fram að unnið væri að skýrslu um málið. Í fundargerðinni er það bókað eftir framkvæmdastjóranum að Þróunarfélagið hafi komið að kaupunum eins og margir aðrir en ekki selt ráðgjöf. Fréttastofa RÚV segist hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að maðurinn, sem starfaði sem framkvæmdastjóri Þróunarfélags Austurlands þar til nýlega hafi unnið sem ráðgjafi fyrir fyrrverandi eigendur Malarvinnslunnar í aðdragandandanum að sölu fyrirtækisins. Fyrirtækið Vaðhylur ehf. fékk svo greitt við kaupin 26 milljónir króna fyrir utan virðisaukaskatt. Samkvæmt fyrirtækjaskrá er framkvæmdastjórinn eigandi þess fyrirtækis og það fékkst staðfest hjá skattayfirvöldum í dag segir í frétt RÚV. Það var Kaupfélagið sem greiddi Vaðhyl ehf. þessa upphæð sem dregin var frá kaupverði fyrirtækisins að beiðni fyrrverandi eigenda Malarvinnslunnar. Samkvæmt upplýsingum frá stjórn Þróunarfélags Austurlands var henni á þessum tíma ekki kunnugt um aðkomu framkvæmdastjórans fyrrverandi að málinu. Það sé heldur ekki ljóst hvort hann hafi á einhverjum tímapunkti komið fram sem starfsmaður Þróunarfélagsins. Í síðustu viku barst fjölmiðlum fréttatilkynning þess efnis að maðurinn hefði látið af störfum sem framkvæmdastjóri félagsins þar sem hann hafi ákveðið að skipta um starfsvettvang. Skiptar skoðanir eru á því hvort kaupverðið á Malarvinnslunni var sanngjarnt á sínum tíma en Kaupfélagið keypti allt hlutafé í fyrirtækinu í september árið 2007 á um 430 milljónir króna og tók við öllum eignum fyrirtækisins og skuldum. Það gerðist svo tæplega einu og hálfu ári síðar, í febrúar á þessu ári að Kaupfélagið fór í þrot og Landsbankinn yfirtók allar eignir fyrirtækisins. www.ruv.is

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar