Hugleiðingar um loðnuleysið

Nú þegar treglega hefur gengið að finna loðnugöngur, þá hafa skotið upp kenningar um hvað valdi. Meðal annars hefur verið bent á hvali sem meintan sökudólg. Það er hins vegar nær útilokað að kenna stækkandi hvalastofnum um að veiðin á loðnu hafi dregist gríðarlega saman.

Málið er að það tekur stórhveli hátt í áratug að verða kynþroska og kýrnar bera ekki nema um þriðja hvert ár eftir það. Það er því augljóst að hægfara breyting á stærð hvalastofna, sem vissulega eru stórtækir afræningjar, getur ekki skýrt þau snöggu umskipti sem urðu á veiðunum á sl. tveimur áratugum en veiðin á þeim er innan við þriðjungur af því sem hún var jafnt tímabil þar á undan.

Nærtækara er að leita skýringa á minni veiði, í aukinni samkeppni og afráni annarra fiska. Fiskarnir sjálfir eru miklu mun stærri affallaþáttur en þáttur mannsins og það magn sem fer ofan í hvalinn. Það er ekki úr vegi að velta því upp hvort að breytingar á aflareglu í þorski úr 25% af reiknuðum viðmiðunarstofni og í 20% sé hluti af skýringu á minnkaðri loðnugengd. Breytingin á aflareglunni í þorski var gerð fyrir fiskveiðiárið 2008/2009 og átti aðeins að gilda í 5 ár, en frá því að hún tók gildi hefur dregið úr loðnuveiðum.

Loðnan er lítill uppsjávarfiskur og mælingarnar á magni í hverri torfu eru háðar mikilli óvissu og síðan er það tilviljunarkennt hvort rannsóknarskipið hitti á torfu eður ei. Það er því ljóst að matið stærð hrygningargöngu er augljóslega háð gríðarlegri óvissu og líklegast aðeins í aðra áttina þ.e. til vanmats.

Allar forsendur fyrir ráðgjöfinni þ.e. hvað lágmarkshrygningarstofn þurfi að vera og hvað náttúrlegt afrán er, eru meira og minna gefnar forsendur sem byggja á afar veikum líffræðilegum forsendum. Það sem liggur fyrir er að breytingar sem gerðar voru á ráðgjöfinni árið 2015 skila mun minni afla á land en áður. Einnig er ljóst að aflinn er mun minni síðustu tvo áratugi en á sama tímabili þar á undan.

Það að gefa síðan út ráðgjöf upp á tonn þ.e. 8.589 tonn þegar ráðgjöfin byggir meira og minna á óvissu og getgátum er nánast spaugilegt.

Það sem þarf að fá fram í umræðunni er hverjar voru forsendur fyrir breytingunni á aflareglunni árið 2015? Ef svarið er að markmiðið hafi verið að draga úr óvissu og minnka sveiflur í veiðinni þá er augljóst að það hefur ekki gengið eftir.

Loðnan kemur


Sjálfur er ég bjartsýnn á að loðnan láti sjá sig við strendur landsins á næstu dögum og tel það jafn víst og að lóan komi að kveða burt snjóinn í vor. Erfiðara er að spá fyrir um magnið og hvort hún verði á vegi mælitækjanna.

Er ekki komið að því að endurskoða þessa aðferð og veiðiráðgjöf t.d. með því að gefa ávallt út 50 þúsund tonna upphafsveiðiheimildir, til þess að fá almennilegan kraft í leitina að loðnunni og fá þá í leiðinni nánari upplýsingar um það magn sem er á ferðinni?

Það mætti t.d. reyna að áhættumeta það upphafsmagn út frá öðrum reiknuðum náttúrulegum affallaþáttum en ætla má að 50 þúsund tonnin séu smáræði samanborið það sem fiskar og hvalir hirða upp af loðnunni.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi og líffræðingur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.