Nýtt upphaf: Hugleiðingar um Fjarðarheiðargöng

Arnbjörg Sveinsdóttir skrifar í Austurgluggann 12. september 2024 að heimastjórn Seyðisfjarðar ítreki að í Svæðisskipulagi Austurlands 2022-2044, sé lögð áhersla á byggingu Fjarðarheiðarganga og í framhaldi verði Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng byggð, með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands.

Þarna er mikið óraunsæi í gangi, því ef á að hugsa um raunverulega hringtengingu miðsvæðis Austurlands, væri eðlilegast að byrja á Fjarðagöngum, þ.e.a.s. Norðfjörður-Mjóifjörður-Seyðisfjörður og þar sem nú er góð leið um Fagradal, sem er aðeins í rúmlega 300 metra hæð – og var lífæð á milli Fjarða og Héraðs í marga áratugi, er komin góð tengin um Austurland allt. Síðar meir, ef menn telja nauðsynlegt, komi göng undir Mjóafjarðarheiði eða Eskifjarðarheiði.

Hefði verið haldið áfram með áform með næstu göng þ.e.a.s. Norðfjörður-Mjóifjörður-Seyðisfjörður hefðu þau að mestu verið komin nú, áfallalítið miðað við reynsluna af gerð Fáskrúðsfjarðarganga og síðan Norðfjarðarganga.

Í skýrslu Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri árið 2005 segir að ef skoðað eru hvaða göng skiluðu mestri arðsemi og samfélagslegum áhrifum komi Fjarðarheiðargöng ekki til greina. Lang réttast væri að grafa göng frá Seyðisfirði í Mjóafjörð-Norðfjörð og Eskifjörð (Norðfjarðargöngin eru þegar komin). Þessi göng hafa verið talin langsamlega arðsömust og skili mestum samfélagslegum ávinningi.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, lýsir þeirri skoðun sinni að óskynsamlegt væri að bora Fjarðarheiðargöng, því mikil áhætta fylgi svo löngum göngum.

Matthías Loftsson, jarðverkfræðingur hjá Mannviti, segir vitað að undir Fjarðarheiði væru þykk og veik setbergslög sem þurfi að kljást við.

Einar Þorvarðarson, umdæmisverkfræðingur Vegagerðarinnar í 40 ár, segir í grein sinni að jarðfræðingar hafi varað við að það geti verið mjög erfitt og hættulegt að grafa þessi göng. Einar gagnrýnir einnig (réttilega) skýrslu starfshóps um Seyðisfjarðargöng og alþjóðafyrirtækisins KPMG (sem er bókhaldsfyrirtæki) sem leggur til að grafin verði göng undir Fjarðarheiði.

Þarna eru umsagnir sérfræðinga, samanber ofanritað, hent út af borðinu.

Einar telur að ráðherra hafi verið blekktur í þessu máli, en hvað um það. Ráðherra tók þarna óskynsamlega ákvörðun að mínu mati og er þarna kannski komin ein af ástæðum þess að við Framsóknarmenn misstum í seinustu kosningum meira en helming þingmanna okkar. Ég vona að núverandi samgönguráðherra taki þarna rétta og skynsamlega ákvörðun, okkur Austfirðingum í hag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.