Í tilefni sjálfsvígsumræðu undangenginna mánaða

Þann 19. apríl síðastliðinn missti ég son minn í sjálfsvígi. Hann hét Bjarni Jóhannes og var 26 ára gamall. Hann var þungarokkari af guðs náð og gríðarlega hæfileikaríkur tónlistarmaður, söngvari og gítarleikari. Hann samdi alla tónlist fyrir hljómsveitina sína Churchhouse Creepers. Hann kunni að skemmta fólki. Hann var frábær snjóbrettamaður og snjóbrettakennari. Hann var lyftingamaður, stór og sterkur strákur. Hann var vinur allra.

Bjarni nam sálfræði við Háskólann á Akureyri í eitt og hálft ár en ákvað svo að helga sig tónlistinni sem var hans ástríða. Hann var við nám í upptökustjórnun við Tækniháskóla Íslands og var með eigið stúdíó þegar eitthvað brast í sál hans og hann yfirgaf þessa jarðvist.

Ég ætla ekki að reyna að skýra það út fyrir nokkrum manni hvað þetta er gífurlegt áfall fyrir foreldri að lenda í svona lífsreynslu, enda ekki hægt. Þetta er líka hræðileg lífsreynsla fyrir alla fjölskylduna, ættingja og vini. Reyndar líka fyrir allt samfélagið. Sjálfsvíg skilja eftir sig svo ótrúlega margar spurningar sem við fáum aldrei svör við. Ég mun allavega aldrei fá nein svör við því hvað kom yfir drenginn minn. Ég geri mér líka fulla grein fyrir því að ég mun aldrei jafna mig að fullu enda verður lífið aldrei aftur eins og það var.

Við verðum hins vegar öll sem glímum við sorgina að reyna að halda lífinu áfram, styðja og styrkja hvert annað. Það er mikið og stórt verkefni og ekki gerir maður þetta hjálparlaust, það er á hreinu. Til þess þurfum við hjálp frá öllum. Við þurfum klapp og knús. Það verður að fyrirgefa okkur fyrir að vera stundum eins og í eigin heimi. Við þurfum hvíld frá leik og vinnu á annan hátt en áður. Við þurfum einfaldlega meiri sveigjanleika en áður. Við erum ekki sama fólkið.

Sumum okkar finnst erfitt að láta aðra sjá þegar okkur líður illa. Stundum viljum við bara vera ein og fá að gráta í friði. Við erum líka gleymnari en áður og eigum jafnvel erfiðara með að skipuleggja okkur en áður. Einbeiting er slakari, heilsufar okkar getur versnað og svo mætti lengi telja. Við viljum samt reyna að skila okkar vinnu og það er okkur mjög mikilvægt enda í flestum tilfellum ekkert annað í boði.

Allt eru þetta einkenni áfallastreitu sem tekur mislangan tíma að vinna sig út úr og það er reyndar líka nokkuð ljóst að fæstir komast frá svona lífsreynslu án þess að eftir verði stór ör á sálinni.

Ég geri mér alveg grein fyrir að þeir sem missa sína glíma flestir við svipaða hluti og margir glíma við sorgina það sem eftir er ævinnar, sama hvernig dauðsföllin verða. En það sem er svo óendanlega sárt við sjálfsvíg er að þau eru svo hræðilega erfið fyrir þá sem eftir sitja. Sjálfsásakanirnar, reiðin, skömmin, tómleysið, tilgangsleysið, hjálparleysið, vonbrigðin, ömurleikinn, einsemdin og þessi óendanlegi söknuður. Þetta eru allt tilfinningar sem ég er að glíma við og væntanlega flestir í sömu sporum.

Öll höfum við það sama á tilfinningunni. Þetta var svo mikill óþarfi. Við áttum að geta séð þetta fyrir. Af hverju spurðum við ekki réttu spurninganna? Af hverju segja menn ekki frá því hvernig þeim líður? Af hverju loka menn hlutina inni ósagða? Af hverju er bara mokað geðlyfjum í fólk án nokkurrar eftirfylgni? Hvernig leyfa geðlæknar sér að ávísa á lyf sem geta aukið sjálfsvígshættu? Af hverju hafa þeir ekki samband við aðstandendur og láta vita af því ef viðkomandi er í sjálfsvígshættu eða spyrja þeir kannski ekki heldur réttu spurninganna?

Ég vissi alveg að syni mínum liði ekki alltaf vel en að honum liði svona illa hafði ég ekki hugmynd um. Ég spurði hann aldrei hvort hann væri í sjálfsvígshugleiðingum. Það hafði reyndar aldrei hvarflað að mér að þessi káti og glaði maður væri með slíkar hugsanir. Ég var hins vegar búinn að vita í nokkra mánuði að hann glímdi við kvíða og þunglyndi og hefði leitað sér hjálpar vegna þessa. Við bjuggum á sitt hvorum enda landsins síðasta árið okkar og hittumst því alltof sjaldan. Alltaf voru fundir okkar jafn innilegir enda skilyrðislaus ást af beggja hálfu. Aldrei fór styggðaryrði á milli okkar og það er mér auðvitað huggun að eiga ekkert nema yndislegar minningar um son minn.

Þann 10. september, sem helgaður hefur verið baráttunni gegn sjálfsvígum flutti ég stutt erindi í Egilsstaðakirkju. Vildi ég með því leggja lítið lóð á vogarskálarnar í þeirri baráttu. Vonandi hef ég orku í að leggja eitthvað til málanna sem gæti orðið til þess að opna umræðuna enn frekar um stöðu geðheilbrigðismála og fjölda sjálfsvíga á Íslandi. Um það mun næsta grein mín fjalla.

Með kveðju frá Seyðisfirði,
Ólafur Hr. Sigurðsson íþróttakennari.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar