Kosningar til stjórnlagaþings - ekki sitja heima!
Kæru lesendur
Þann 27. nóvember nk. fara fram kosningar til stjórnlagaþings.
Stjórnlagaþing hefur það eitt hlutverk að búa til nýja stjórnarskrá, sem
Alþingi fær síðan til afgreiðslu.
Þessar kosningar eru mjög mikilvægar, ekki bara vegna verkefnisins sem fyrir því liggur, heldur þarf þjóðin að sýna í verki að hún vilji breytingar með því að mæta á kjörstað. Ef kjörsókn verður dræm er það vatn á myllu þeirra sem vilja ekki breytingar. Þá þýðir líka lítið að kvarta undan hvað kerfið sé ómögulegt ef við nýtum ekki tækifærið til breytinga!
Á sama hátt þarf sá hópur sem velst til þingstarfa að vinna saman og skila samhljóða niðurstöðu til Alþingis, leysa ágreiningsmál innan þingsins en ekki í atkvæðagreiðslum í lokin.
Mörgum finnst það óyfirstíganlegt að þurfa að skrifa númer 25 frambjóðenda á blað, en það er einfaldlega ekki þannig. Kjósandi getur þess vegna skrifað bara númer eins frambjóðanda ef honum sýnist svo og það er miklu betra að mæta og kjósa einn frambjóðanda en mæta ekki. Ég hef nokkrar áhyggjur af því hve fólk á landsbyggðinni og kannski sérstaklega hér fyrir austan sýnir þessu lítinn áhuga í verki.
Frambjóðendur eru fáir og heyrist ekki mikið í okkur. Mín tilfinning er samt sú að við séum vanari því að þurfa að afla okkur upplýsinga sjálf en þeir sem búa í þéttbýlinu.
Blaðið með kynningu á frambjóðendum barst inn á heimili mitt í gær og vonandi er svo hjá flestum. Einnig eru upplýsingar um kjósendur á vefnum www.kosning.is og þar er hjálparkjörseðill sem hægt er að fylla út rafrænt og prenta út.
Ég vil hvetja ykkur til að kynna ykkur vel reglurnar sem þar eru, velja frambjóðendur áður en þið farið á kjörstað og takið ykkar val með á blaði til að flýta fyrir.
Ég tók þá ákvörðun að bjóða mig fram til stjórnlagaþings á svipuðum forsendum og ég hef verið að tíunda hér fyrir framan. Það þýðir ekkert að tala um hvað hlutirnir eru ómögulegir en vilja svo ekkert á sig leggja til að breyta þeim. Ég er vön ýmis konar greiningarvinnu, vön að útskýra, vön að vinna með öðrum og tilbúin að hlusta á það sem aðrir segja. Ég er ekki í þessu framboði sem fulltrúi neinna hagsmuna- eða stjórnmálasamtaka, heldur sem einstaklingur. Ég ætla ekki að eyða neinum fjármunum í auglýsingar, né taka við framlögum frá einstaklingum eða fyrirtækjum. Ég vil að fólk úr sem flestum áttum komist á stjórnlagaþing, svo sjónarmið sem flestra heyrist þar.
Ég vil svo heita á austfirðinga alla og landsbyggðarfólk að horfa á það hversu hlutfall okkar er lágt í þessu framboði. Við á landsbyggðinni höfum mun meiri hagsmuna að gæta þegar kemur að ráðstöfun auðlinda, en þeir sem búa á SV-horninu. Við verðum líka að tryggja að hvernig sem kosningar fara fram, verði möguleikar landsbyggðafólks til að koma sínum fulltrúum að ekki fyrir borð bornir.
Mætum á kjörstað 27. nóvember og veljum til starfa hæft fólk!
Hallormsstað 16. nóvember 2010
Þórunn Hálfdanardóttir – 5152 – frambjóðandi til Stjórnlagaþings