Lýðræði í Fjarðabyggð

Eftir nokkrar vikur verður kosið um það hverjir fara með vald fólksins í sveitarfélaginu Fjarðabyggð næstu fjögur árin. Við í Fjarðalistanum teljum eflingu lýðræðis eitt mikilvægasta verkefni næsta kjörtímabils og í þessari grein viljum við gera grein fyrir hugmyndum okkar um hvernig hrinda megi lýðræðisumbótum í framkvæmd í Fjarðabyggð.

 

fjardalistinn_logo_minna.jpgEfla þarf samband við íbúasamtök

Mikil þörf er á góðum og gagnvirkum tengslum við íbúa allra byggðarkjarna sveitarfélagsins. Það er allra hagur að sveitarstjórnarfólk sé vel upplýst um skoðanir og hugmyndir íbúanna og að almenningur hafi réttar upplýsingar um störf og fyrirætlanir kjörinna fulltrúa. Við teljum að mikið verk sé óunnið hvað þetta varðar en tækifærin til úrbóta eru augljóslega fyrir hendi.

Í þessu sambandi viljum við nefna tvennt:

Í fyrsta lagi hafa orðið til íbúasamtök í flestum kjörnum Fjarðabyggðar sem þegar hafa sýnt fram á ágæti sitt. Við viljum hvetja til áframhaldandi starfs slíkra samtaka, koma stjórnum þeirra í náin og bein tengsl við sveitarstjórnafólk og ýta þannig undir íbúalýðræði.

Í öðru lagi viljum við fara að fordæmi nokkurra stærri sveitarfélaga og bjóða upp á rafræna vefgátt þar sem hægt væri að leggja skoðanakannanir fyrir íbúanna og kanna hug þeirra til hinna ýmsu mála. Slík gátt gæti jafnframt orðið liður í bættri þjónustu sveitarfélagsins því hana gætu íbúar Fjarðabyggðar notað til að sækja persónubundnar upplýsingar, sent inn fyrirspurnir, sótt þjónustu og fleira.

Valdið til fólksins

Við búum við fulltrúalýðræði í Fjarðabyggð. Mat okkar í Fjarðalistanum er að auka þurfi möguleika kjörinna fulltrúa á að fara sem best með það vald sem þeim hefur verið falið. Starf bæjarfulltrúa í Fjarðabyggð er í raun viðbótarstarf við fulla vinnu. Í stóru sveitarfélagi, sem sífellt tekur við fleiri verkefnum, er því í mörgu að snúast. Sólarhringurinn dugar skammt fyrir einstakling sem er í fullri vinnu, situr í bæjarstjórn, á fjölskyldu og áhugamál. Þessi staða getur dregið verulega úr möguleikum kjörinna fulltrúa á að uppfylla, svo vel sé, þær pólitísku og lýðræðislegu skyldur sem fylgja starfi bæjarfulltrúa, enda bera allir bæjarfulltúrar ábyrgð á  niðurstöðum mála hjá sveitarfélaginu. Okkar mat er að þessar skyldur hafi alltof oft verið lagðar á herðar embættismanna.

Fjarðalistinn kemur til með að leggja áherslu á að unnið verði að því að leiðrétta þetta á komandi kjörtímabili og efla starfsvettvang bæjarfulltrúa þannig að þeir geti betur axlað þá pólitísku ábyrgð sem kjör þeirra í bæjarstjórn hefur lagt þeim á herðar. Við viljum að valdið sé raunverulega hjá fólkinu og fulltrúum þess.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.