ÞNA í samstarf við Keili
Þekkingarnet Austurlands (ÞNA) og Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, hafa gert með sér samning um svokallaða Háskólabrú Austurlands. Er það aðfararnám að háskólanámi fyrir þá sem ekki hafa lokið stúdentsprófi og fer nú í fyrsta sinn fram á Austurlandi. Að loknu námi uppfylla nemendur inntökuskilyrði í háskóla hérlendis og erlendis og telst námið sambærilegt stúdentsprófi .
Markmiðið með náminu er að nemendur verði vel undirbúnir fyrir krefjandi háskólanám, innan lands sem utan.
Að sögn Stefaníu Kristinsdóttur, framkvæmdastjóra ÞNA, er Háskólabrú mikilvægt skref í að auka möguleika íbúa á Austurlandi til að sækja háskólanám. ,,Margir, sérstaklega fullorðið fólk, vill geta nýtt sér menntunarmöguleika á borð við Háskólabrú til að komast í háskólanám,“ segir Stefanía. ,,Háskólabrú Austurlands mun í fyrstu atrennu bjóða upp á nám í félagsvísinda- og lagadeild, sem gerir fólki kleift að fara í háskólanám t.d. í uppeldisgreinum. Þá getur fólk sem vill fara í aðrar deildir nýtt þann sameiginlega grunn sem kenndur er í félagsvísinda- og lagadeild og tekið viðbótaráfanga í fjarnámi við Keili. Ef vel gengur að manna Háskólabrúna þá er stefnan að allir kúrsar og deildir verði kenndar í lotum á Austurlandi.“
Háskólabrúin blandað námsfyrirkomulag, sem felst í því að nemendur eru í fjarnámi hjá Keili en staðbundnar vinnulotur verða á Austurlandi á fimm vikna fresti . Loturnar eru skipulagðar og kenndar af staðkennurum, sem jafnframt eru nemendum til aðstoðar á milli lota. Þetta er fullt eða hálft nám sem kennt er á tveimur önnum. Námið er 58 einingar á framhaldsskólastigi. Inntökuskilyrði eru að umsækjendur hafi lokið 70-90 einingum á framhaldsskólastigi og þar af þurfa umsækjendur að hafa lokið að minnsta kosti 6 einingum í stærðfræði, íslensku og ensku. Umsækjendur sem orðnir eru 25 ára eða eldri eiga möguleika á að fá starfsreynslu sína metna til eininga að hluta upp í þær lágmarkseiningar sem krafa er gerð um.
ÞNA mun í samvinnu við Keili bjóða upp á nám í Háskólastoðum fyrir þá sem ekki uppfylla inntökuskilyrði. Háskólastoðir eru tveggja anna nám með vinnu.