Nýtt þorp á Austurlandi
Nú í vikunni stendur yfir kynning á hönnunar og nýsköpunarverkefninu Þorpinu – skapandi samfélagi á Austurlandi. Í gærkvöld var önnur kynning af tveimur og hin síðari verður í kvöld í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Blásið verður svo til málþings á Eiðum nú á fimmtudagskvöld. Meginhugmynd Þorpsins er atvinnusköpun á sviði hönnunar og framleiðslu á nytjahlutum.
Verkefninu er ýtt úr vör af stoðstofnunum á Austurlandi þ.e. Menningarráði Austurlands, Þróunarfélags Austurlands og Þekkingarneti Austurlands í samstarfi við Fljótsdalshérað.
Þorpið er tilraunaverkefni til eins árs til og er ætlunin að byggja upp skapandi samfélag á Austurlandi á sviði hönnunar og handverks. Þorpið verður í samstarfi við fjölmarga aðila á Austurlandi um mismunandi verkefni sem öll lúta að því að skapa atvinnu á sviði hönnunar og framleiðslu á nytjahlutum. Verkefnið er öflugur klasi þar sem samnýting fjármuna og mannauðs fer saman. Á málþinginu á Eiðum verða margir spennandi fyrirlesarar m.a. Martina Lindberg frá Finnlandi en hún mun kynna uppbyggingu á listamannasamfélagi í Fiskars í Finnlandi. Einnig munu framkvæmdastjórar Hönnunarmiðstöðvar Íslands og Hugmyndahúss Háskólanna flytja fyrirlestra.