Opið bréf til Sillu frá Á-listanum
1. Ætlar framboðið að halda í núverandi bæjarstjóra?
Ráðningarsamningur bæjarstjóra er laus við lok kjörtímabils. Við lítum
svo á að ákvörðun um ráðningu bæjarstjóra sé samkomulagsatriði á milli
þeirra framboða sem fara í meirihlutasamstarf eftir kosningar.
2. Ef ekki, hvert er þá ykkar bæjarstjóraefni?
Sjá svar við 1. spurningu.
3. Nauðsynlegt er að sameina nokkur svið og setja undir einn hatt allt veitu, gatnakerfi, fasteigna, skipulags og sorpmál, með því sparast mikið í yfirstjórn og gefur færi á fleiri óbreyttum starfsmönnum sem geta þá sinnt þeim verkum sem vinna þarf íbúum til góða. Gefur fleirum kost á vinnu sem kemur sér vel og það án viðbótar kostnaðar.
Í ljósi þess að gríðarleg yfirbygging er í stjórnsýslu sveitarfélagsins miðað við íbúafjölda með tilheyrandi kostnaði, eruð þið með kjark og þor til að segja upp öllum starfsmönnum sveitarfélagsins til að framkvæma þá hagræðingu sem þar þarf að fara fram?
Ekki þarf að efast um kjark og þor Á-listans til þess að leita allra leiða til hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins.
4. Eruð þið tilbúin að segja upp öllum skólastjórum og ráða einn slíkan yfir alla grunnskóla sveitarfélagsins og ráða í raun framkvæmdastjóra yfir alla skólana sem er bæði með fagþekkingu sem og fjármálavit ?
Þessi hugmynd samræmist ekki vilja og stefnu Á-listans sem vill áfram tryggja tilveru og sjálfstæði allra grunnskóla og stuðla þar með að því að foreldrar geti valið skóla fyrir börn sín eftir stefnum þeirra og áherslum. Með því skapar Fljótsdalshérað sér einnig ákveðna sérstöðu á meðal annarra sveitarfélaga á Austurlandi. Ekkert liggur fyrir um að sparnaður felist í þessu.
5. Og eruð þig einnig tilbúin að gera slíkt hið sama með leikskólana þ.e. að ráða einn leikskólastjóra fyrir alla leikskólana?
Þessi hugmynd samræmist ekki vilja og stefnu Á-listans sem vill áfram tryggja tilveru og sjálfstæði allra leikskóla og stuðla þar með að því að foreldrar geti valið skóla fyrir börn sín eftir stefnum þeirra og áherslum.
6. Og meira um leikskóla. Nú ríkir gífurleg ónægja með sumarlokun þeirra skóla og setur atvinnurekendur í gríðarlegan vanda á hverju ári. Við í þessu sveitarfélagi eigum mikið undir öllum þeim gestum sem sækja okkur heim á sumrin og viljum skila sem bestri þjónustu. Það er erfitt þegar lykilstarfsmenn hjá fyrirtækum neyðast til að taka frí á háannatíma vegna þess að sveitarfélagið skellir í lás þeirri grunnþjónustu sem við þurfum á að halda.
Þetta er jú þjónustustofnun þó nokkrir vilji meina annað.
Eruð þið tilbúin að beita ykkur fyrir því að hætta með sumarlokun og færa aftur til foreldra það vald að þeir geti ákveðið sjálfir hvenær þeir fara í sumarfrí?
Við getum tekið undir með þér að ekki er gott að lykilstarfsmenn þurfi að taka frí á háannatíma vegna sumarlokana leikskóla. Við erum tilbúin til að kanna vilja foreldra og afstöðu þeirra til sumarlokana áður en ákvarðanir verða teknar fyrir næsta sumar.
7. Nú berast þær fregnir að loka eigi einni deildinni á leikskólanum Tjarnarlöndum sem er fyrir elstu börnin vegna fækkunar í þeim aldurshópi. Á sama tíma er verið að neita ungum foreldrum um pláss fyrir yngstu börnin í haust þar sem sú deild er víst yfirfull.
Finnst ykkur þetta eðlilegt? Og eruð þið tilbúin að stækka þá deild sem þörf er á í stað þeirrar sem fækkun er á?
Á-listinn studdi þá tillögu sem lögð var fram á síðasta bæjarstjórnarfundi um að þetta mál yrði tekið upp við endurskoðun fjárhagsáætlunar nú í júní. Í stefnu Á-listans er tekið fram að unnið verði að því að finna leiðir til að fullnýta þau leikskólapláss sem til eru í sveitarfélaginu.
8. Og meira um leikskóla. Leikskólagjöld voru hækkuð og jafnframt teknar af þessar 15 mínútur sem foreldrar höfðu til að koma með og sækja börn sín á, nema greitt verði fyrir það sérstaklega. Ef það kemur fyrir þó ekki sé nema nokkrum sinnum er sektað fyrir að sækja of seint jafnt sem að koma með of snemma. Þetta er auðvitað til háborinnar skammar og setur fjölmarga foreldra í mikinn vanda. Það kaupir engin auka 15 mín á 9000 kr eins og mér skilst að það sé á mánuði, heldur hætta foreldrar að vinna aðeins fyrr sem og byrja seinna með góðum vilja atvinnurekanda, laun fólks verða minni, engin ráðinn í staðin fyrir 15 mín og það endar með minni útsvarstekjum til sveitarfélagsins.
Eruð þið tilbúin til að leiðrétta og endurskoða þetta með tilliti til þeirra er þjónustuna þurfa að nota?
Vinna þarf að heildstæðri endurskoðun á gjaldskrá leikskólans. Í þeirri vinnu verða þessir hlutir skoðaðir með gagnrýnum augum.
9. Ætlar framboðið að beita sér fyrir opinberri rannsókn á hinu fræga fasteignafyrirtæki sveitarfélaganna? Margir telja þar ekki allt með felldu.
Komi upp rökstuddar ástæður til að slík rannsókn fari fram þá munum við styðja það.
10. Nú búum við í landstærsta sveitarfélagi landsins og samt keyrum við sorpi okkar í annað sveitarfélag, telur framboðið það viðundandi gjörning?
Nei, hreint ekki. Í stefnuskrá Á-listans kemur fram að unnið verði að framtíðarlausn á sorpeyðingu sveitarfélagsins. Leitað verði hagkvæmra leiða og þar með ekki útilokað að fara í samstarf við önnur sveitarfélög.
11. Nú er gríðarlegur sóðaskapur af kattaeign bæjarbúa sem og villiköttum, eruð þið tilbúin að banna lausagöngu katta jafnt og hunda og framfylgja því?
Við teljum reglur sveitarfélagsins um hunda- og kattahald fullnægjandi en hugsanlega þarf að herða á eftirfylgni með þeim.
12. Ætlið þið að halda í deiliskipulag af hinu svo kallaða Striki (rauða dreglinum)?
Strikið er barns síns tíma og ljóst má vera að ekki verður farið í svo kostnaðarsamar framkvæmdir, að minnsta kosti ekki á næsta kjörtímabili.
13. Eruð þið tilbúin til þess að lýsa yfir opinberlega þeirri skoðun að Fjórðungssjúkrahús Austurlands eigi, miðað við aðstæður nútímans, að vera á Egilsstöðum og þá jafnframt berjast fyrir því að það verði flutt til og byggt upp hér og í staðin verði byggð upp öflug endurhæfingarstöð á Neskaupstað.
Við höfum lengi verið þeirrar skoðunar að fjórðungssjúkrahúsi Austurlands verði best fyrir komið á Egilsstöðum í næsta nágrenni við alvöru flugvöll.
14. Nú eiga öryrkjar og aldraðir sem búa heima rétt á aðstoð frá félagsþjónustunni. Aldraður aðili hér í bæ sótti um slíka þjónustu í fyrsta sinn í vetur og bað um að viðkomandi kæmi þegar sorp væri tekið því hún treysti sér ekki lengur til að moka snjó frá sorptunnunum sem nú er ekki bara 1 tunna heldur 3 tunnur. Svarið sem fékkst var að ekki væri hægt að fá slíka aðstoð en ef viðkomandi vantaði aðstoð við þrif innandyra væri það alveg sjálfsagt? Þessi aðili þurfti ekki á þeirri aðstoð að halda og varð fyrir sárum vonbrigðum og fannst sér misboðið vera orðin 83 ára og aldrei beðið um aðstoð fyrr frá þessari þjónustu, finnst ykkur þetta eðlilegt?
Á það að skipta máli í hverju aðstoðin felst, svo framarlega að ekki sé farið fram á eitthvað sem ekki er framkvæmanlegt fyrir viðkomandi starfsmann þjónustunnar. Skúra gólf eða moka frá sorptunnu, breytir það einhverju?
Það er skýr stefna Á-listans að aldraðir geti búið eins lengi á eigin heimili og vilji og geta er fyrir hendi og því teljum við mikilvægt að skoða hvar skóinn kreppir í hverju tilviki fyrir sig.
15. Í dag er að sjá sem svo að nefndarmenn séu gjörsamlega út á þekju hvað varðar málefni sveitarfélagsins og hafa ekki hugmynd um hvað verið hefur í gangi og hafa hreinlega ekki tíma til að setja sig inn í málin. Í viðamiklum málum þarf kjörinn fulltrúi að vera mjög vel með á nótunum og það þýðir, að ekki er hægt að vera í fullri vinnu og reka heimili um leið og stjórnað er heilu sveitarfélagi, það getur engin nema þá kannski opinberir starfsmenn, það vitum við öll en engin vill segja upphátt. Og svo merkilegt sem það er með okkur íslendinga þá gengur launaða vinnan fyrir og í flestum tilfellum heimilið og svo kemur hitt. Þannig er einfaldlega ekki hægt að reka sveitarfélag lengur. Menn verða að vera vel inn í því sem að þeim snýr og sinna því af samviskusemi. Gera á mönnum kleift að taka sér launalaust leyfi verði menn kjörnir í sveitastjórn svo hægt sé að sinna því vel og það þýðir að laun verður að greiða á móti.
Ætlið þið að beita ykkur fyrir því að fækka í sveitastjórn, fækka nefndum og ráðum og í kjölfarið hækka svo laun til þeirra er vinna að sveitarstjórnarmálum þannig að kjörnir fulltrúar geti sinnt þessu viðamikla starfi sómasamlega?
Við ætlum ekki að beita okkur fyrir fækkun í sveitarstjórn því við teljum það þrengja lýðræðið. Skipulag stjórnsýslunnar má aldrei útiloka mögulega þátttöku hins almenna borgara. Það má ljóst vera að erfitt er fyrir suma að taka sér launalaust leyfi frá störfum til að sinna sveitarstjórnarmálum.