Orkuöflun á krepputímum

Leiðari Austurgluggans 9. október 2009: 

Ég gerði dálitla tilraun tilraun á sjálfri mér á dögunum. Það var í þann mund sem byrjað var á ný að tala um stjórnarkreppu í kjölfar afsagnar Ögmundar og stjórnarandstaða gömlu flokkanna galaði eins og hani á haug um getuleysi og óstjórn ríkisstjórnarinnar.

austurglugginn.jpg

Sömu ríkisstjórnar og stendur nú upp að öxlum í eðjunni sem fyrri stjórnhættir gátu af sér og getur sig trauðla hrært, en reynir þó af ýtrustu (en hugsanlega þverrandi) kröftum að koma böndum á ástandið. En þetta var sem sagt dálítil tilraun og gerð í tilefni af því að ég var að missa glóruna vegna utan að komandi áreitis á skilningarvit mín.

  

Ég slökkti á útvarpinu. Lokaði tölvuskrípinu. Kveikti alls ekki á sjónvarpi. Hlustaði á tikkið í klukkunni sem færir mig inn í veturinn á furðumiklum hraða. Ég lokaði meira að segja augunum. Hugleiddi þau merku sannindi að við getum sjálf stjórnað áreiti hvunndagsins að miklu leyti. Greip mig í að vera aftur farin að hugsa um landsmálin. Kreppan virðist vera búin að hreiðra um sig í heilavef mínum. Afréð að fara út að ganga, minnug þess sem Hörður Torfason sagði eitt sinn við mig þegar ég hitti hann á Laugaveginum hér í gamla daga; að ekkert væri eins heilsusamlegt fyrir sálina og að ganga úti við. Þannig mætti fá þyngstu sorgir og flóknasta hugarvíl til að hjaðna, í það minnsta um stundarsakir. Dumbrauð og gulleit laufblöð skriðu eftir götum í norðaustanvindinum og fyrstu snjókorn vetrarins kitluðu mig í nefið. Hugur minn kyrrðist og orkan endurnýjaðist.

  

Ég held, góðir landsmenn, að til að þrauka veturinn af verðum við meðvitað að skýla sjálfum okkur fyrir argaþrasinu. Þó minna sé í buddunni og kannski næstum ekki neitt, skulum við reyna að nema fegurð hins smáa, andvarann, ilminn, liti og form. Hlusta eftir glöðum hlátri, mjúkum klið. Muna eftir vinum og fólkinu sem okkur þykir vænt um. Hlú að kærleik og ástúð hvar sem því verður við komið. Ég þekki öndvegiskonu og við komumst nýlega að sameiginlegri niðurstöðu um að þegar við yrðum gamlar konur myndum við frekar orna okkur við minningar um vináttu sem var rækt, en þvottinn sem við brutum saman um dagana og tímann sem fór í gagnslitlar og slítandi áhyggjur.

  

Og við stjórnmálamenn vil ég segja þetta: Takið til alvarlegrar skoðunar að nú er ekki tíminn til að vera í skotgrafahernaði; ,,þú ert aumingi en ég er frábær og veit allt/skil allt“-heilkenninu. Nú ríður á að standa saman, hefja sig yfir gamlar væringar og gefa þeirri þjóð, sem þið lofuðuð að starfa fyrir af heilindum, von um að úr rætist og vissu um að þið vinnið saman sem einn maður af ýtrustu ábyrgð, yfirvegun og myndugleik.

  

Að þessu sögðu er ég farin út að ganga.

 Steinunn Ásmundsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar