Sameiningarkórinn – líka fyrir laglausa

Á fundi bæjarstjórnar Seyðisfjarðar fyrir rétt rúmu ári var samþykkt að skipa þrjá fulltrúa í samstarfsnefnd sem myndi vinna að tillögu vegna fyrirhugaðrar sameiningar Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshérðaðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Umræðan fram að því hvernig ætti að velja þessa þrjá fulltrúa hafði verið á þá leið að mikilvægt væri að fulltrúar allra flokka ættu sæti í nefndinni og ekki síður mikilvægt að velja fullrúa með ólíkar skoðanir til sameiningar.

Undirritaður á sæti í samstarfsnefndinni og var frekar svartsýnn á að sameining væri Seyðfirðingum til framdráttar. Ég hef verið gagnrýninn á umræðuna frá upphafi og er líklega hluti af ástæðu þess að formaður nefndarinnar, Björn Ingimarsson, telur nefndina ekki hafa vera neinn halelújakór í grein sinni sem birtist á austurfrett.is þann 14. október síðastliðinn.

Helsta ástæðan fyrir svartsýni minni er óvissan. Óvissan um hvað tekur við ef af sameiningu verður, sérstaklega fyrir minni byggðarkjarnana. Tilraunir með heimastjórnir eru meðal annars hugsaðar til að koma á móts við þessar áhyggjur fólks. Með því góða sveitarstjórnarfólki sem nú situr í umræddum sveitarfélögum hef ég engar áhyggjur að vera hluti af nýju stærra sveitarfélagi en enginn veit nákvæmlega hvað framtíðin ber í skauti sér og er ómögulegt að eyða þessari óvissu.

Samstarfsnefndin, verkefnastjórar verkefnisins, RR ráðgjöf og fjöldi nefnda skipuðu starfsfólki og kjörnun fulltrúum auk ýmissa verktaka vann hins vegar gríðarlega góða greiningarvinnu og safnaði saman miklu magni gagna þar sem á er að líta staðreyndir. Ég er hrifinn af staðreyndum. Staðreyndirnar eru þær að sameinuð munum við hafa öflugri stjórnsýslu, geta veitt betri þjónustu til íbúa og vera betur í stakk búin til að takast á við ýmsar óvissur í framtíðinni, fjárhagslegar sem og aðrar.

Með þessu er ég ekki að segja að nýtt sameinað sveitarfélag verði gallalaust og án hnökra og líklega ekki neinn halelújakór. Þó hefur þessi vegferð, sem hefur tekið rúmt ár, sannfært mig um að okkur farnist betur sameinuð en sundruð. Ég verð samt líklega seint talinn lagviss og örugglega ekki valinn í neinn kór en við getum vel sungið saman og haft það gott.

Ég hvet kjósendur að kynna sér þau gögn og staðreyndir sem fyrirliggja til að taka upplýsta ákvörðun og mæta á kjörstað á laugardaginn.

Elvar Snær Kristjánsson
D lista Seyðisfirði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar