Svar við opnu bréfi Sigurðar Gunnarssonar um þjóðveg 1
Sæll Sigurður og þakka þér fyrir bréf þitt til samgöngunefndar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) sem barst 10. febrúar sl. Þar varparðu fram nokkrum spurningum sem hér verður leitast við að svara.
Í fyrsta lagi hefur ekki verið unnin af hálfu SSA könnun á skoðunum íbúa á Austurlandi um legu þjóðvegar 1. Ákvörðun um legu þjóðvegar 1 er í höndum Vegagerðarinnar í samráði við ráðherra.
Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur ítrekað samþykkt ályktun um að Vegagerðin vinni faglega úttekt á legu þjóðvegar 1. Samkvæmt nýlegum upplýsingum frá vegamálastjóra, liggur sú úttekt fyrir og er í skoðun hjá ráðherra.
Á vef innanríkisráðuneytisins birtist nýverið eftirfarandi tilkynning:
„Um langa hríð hefur verið uppi umræða um legu Hringvegarins á Austurlandi og hvort breyta eigi núverandi skilgreiningu þannig að Hringvegurinn, þjóðvegur 1, milli Fljótsdalshéraðs og fjarðanna liggi ekki eins og nú er um Skriðdal og Breiðdalsheiði heldur um Norðfjarðarveg og Suðurfjarðaveg. Ólöf Nordal innanríkisráðherra leggur hér fram til kynningar þessa hugmynd.
Vegagerðin ákveður legu Hringvegarins á þessu svæði jafnt sem á öðrum svæðum en hann er jafnan skilgreindur sem aðalleið, þ.e. greiðfærasta leið og þá með sem mestri vetrarþjónustu. Ákvörðun Vegagerðarinnar yrði tekin í samráði við innanríkisráðherra.“
Vonandi svarar þetta bréf spurningum þínum.
Virðingarfyllst,
Einar Már Sigurðarson
formaður samgöngunefndar SSA