Tilbúin í slaginn

Ólíkt mörgum sveitarfélögum í dag þá býr Fjarðabyggð yfir fjölbreyttri flóru sterkra fyrirtækja á sviði framleiðslu og þjónustu ýmis konar. Helsta hlutverk bæjarstjórnar gagnvart atvinnulífinu á hverjum tíma hlýtur að vera, að standa vörð um hagsmuni fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra. 

Ríkið rekur hér í sveitarfélaginu stóra vinnustaði sbr. Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupsstað og heilsugæslurnar í Fjarðabyggð, Verkmenntaskólann í Neskaupsstað, Sýslumannsembættið á Eskifirði og Vegagerðina á Reyðarfirði. Hjá þessum stofnunum starfa líklega um 300 manns. 

 

Image Bæjarfulltrúar verða að vera vakandi yfir öllum tilhneigingum stjórnvalda til að skera niður þjónustu og segja upp fólki í opinberum störfum í sveitarfélaginu og mótmæla því kröftuglega opinberlega og við ráðherra og aðra ráðamenn í Reykjavík.  

Við útgerð og vinnslu starfa rúmlega 400 manns í sveitarfélaginu. Uppi eru hugmyndir hjá stjórnvöldum um aðgerðir sem tefla í tvísýnu framtíð og afkomu stórs hluta þeirra starfsmanna sem hjá þessum fyrirtækjum starfa. Fyrningarleið er „lausn“ sem bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur hafnað alfarið hingað til og er það stefna Sjálfstæðismanna í Fjarðabyggð að berjast með öllum ráðum gegn fyrirhugaðri leið – sem er ekki til neins annars fallinn en að skerða lífskjör sjómanna og fiskverkafólks í sveitarfélaginu. 

Sömu sögu er hægt að segja um starfsemi Alcoa Fjarðaáls og tengdum fyrirtækjum. Uppi hafa verið hugmyndir um stórhækkaðar álögur á viðkomandi fyrirtæki. Slíkar skattahækkanir eru einungis til þess fallnar að Alcoa dregur saman seglin, minnkar aðkeypta vinnu og viðhald sem þýðir fækkun starfa í þjónustutengdum fyrirtækjum. 

Í erfiðu árferði eins og nú í rekstri sveitarfélagsins er það lífsnauðsynlegt að hér séu vel rekin fyrirtæki og öryggi starfsmanna tryggt með fremsta móti. Sjálfstæðismenn í Fjarðabyggð ætla að standa með fólkinu og fyrirtækjunum í sveitarfélaginu – berjast á móti ógnunum sem steðja að atvinnulífinu og taka slaginn með starfsmönnum fyrirtækjanna í að verja störf sín. 

Listi Sjálfstæðismanna í Fjarðabyggð er skipaður öflugum og samstæðum hópi með mikla reynslu af rekstri fyrirtækja, stofnana og nýsköpunarfyrirtækja í sveitarfélaginu. Við treystum okkur fyllilega í þann slag sem framundan er – og vonumst eftir þínu trausti 29. maí.

Höfundur skipar efsta sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar