Um aðstæður fyrir göng undir Fjarðarheiði

Þann 12. febrúar birtist á Austurfrétt frétt þar sem sagt frá fundi um samgöngumál á Eskifirði. Ágúst Guðmundsson jarðfræðingur flutti þar erindi og er m.a. haft eftir honum að hann óttist að aðstæður til jarðgangagerðar undir Fjarðarheiði geti um margt verið líkar aðstæðum í Vaðlaheiði. Þetta kemur á óvart, flestir sem hafa skoðað aðstæður, telja að mikil líkindi sé með aðstæðum fyrir Norðfjarðargöng og Fjarðarheiðargöng.

Það voru alls konar vandræði í Vaðlaheiðargöngum, þannig að mögulega má segja hér eftir, að komi erfiðleikar fyrir í göngum þá hafi sömu erfiðleikar verið i Vaðlaheiðargöngum. Það skýrir þó málið sennilega ekki mikið. Hér verða nefnd nokkur atriði varðandi Fjarðarheiðargöng.

Vatn

Á Vestfjörðum hefur komið mismunandi mikið vatn í göng. Í göngum á Austfjörðum, það er Fáskrúðsfjarðargöngum og Norðfjarðargöngum, hefur verið lítið vatn. Á Tröllaskaga kom hins vegar mjög mikið mikið vatn í göngin um Múla og Héðinsfjörð. Vaðlaheiði er í nágrenninu og þar kom líka nokkuð mikið kalt vatn.

Að einhverju leyti má skýra þetta með mun á jarðfræði á þessum svæðum. Berg á Austurlandi er tiltölulega þétt. Á Tröllaskaga er meira af opnum sprungum vegna tíðra jarðskjálfta. Rannsóknir á bergi undir Fjarðarheiði sýna frekar þétt berg, en líka hafa fundist opnar sprungur. Almennt er þó ekki búist við miklu vatni í Fjarðarheiðargöngum, en það getur þó komið á einstökum stöðum um opnar sprungur þar sem þær eru. Það getur því komið vatn og ekki er gott að stoppa innrennsli í vatnið á heiðinni. Unnið er að hönnun ganganna og eru tillögur uppi um að fylgjast vel með mögulegu innrennsli göngin samhliða grefti og þétta bergið á einstökum svæðum til að hindra mikið innrennsli.

Setberg

Það sem tafði mest og var dýrast í Norðfjarðargöngum voru veik setbergslög. Þau eru líka í Fjarðarheiði líklega í svipuðu hlutfall, þó að um það sé allmikil óvissa. Meira af þessum lögum virðist vera Héraðsmegin. Svo kemur oft eitthvað fyrir við jarðgangagerð sem enginn sá fyrir. Í löngum göngum eru miklar líkur á einhverju slíku.

Lengd

Göngin eru áætluð mjög löng, rúmlega 50% lengri en Norðfjarðargöng, og verða væntanlega grafin til helminga frá báðum endum eða 6,5 km hvoru megin. Til samanburðar má nefna að grafnir voru um 4,5 km frá Eskifirði í Norðfjarðargöngum og 5 km frá Eyjafirði í Vaðlaheiði. Einhverjir auknir erfiðleikar eru við að grafa svo langt, bæði aukin loftræsing og lengra að flytja efnið út, en ekki er álitið að það skipti miklu máli. Framkvæmdatíminn er sennilega í nokkuð beinu hlutfalli við lengd ganga og getur orðið um 7 ár.

Gangaleið

Til að gera gott vegakerfi á Austfjörðum þarf göng frá Norðfirði um Mjóafjörð til Seyðisfjarðar og svo þarf göng á milli Héraðs og Fjarða. Þar eru tvær leiðir mögulegar, undir Mjóafjarðarheiði 9 km eða undir Fjarðarheiði 13,3 km. Göng undir Mjóafjarðarheiði eru 4 km styttri og sirka 10 milljörðum ódýrari. Göng um Fjarðarheið leiða til betra vegakerfis sem leiðir til styttri vegalengda og minni aksturs. Hvora leiðina á að velja er hægt að hafa mismunandi skoðanir á.

Svo er bara að vona að byrjað verði sem fyrst.

Höfundur er forstöðumaður jarðgangadeildar Vegagerðarinnar

Frá rannsóknaborunum á Fjarðarheiði. Mynd úr safni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar