Við höfum fyrr beðið

Leiðari Austurgluggans 2. október 2009: 

Fólki brá í brún þegar fréttist af því að ekki yrðu veitt sérleyfi til rannsókna og vinnslu olíu og gass á Drekasvæðinu í ár. Þó menn hér hafi ekki beinlínis haft olíuglýju í augunum vegna Drekans, voru bundnar heilmiklar vonir við að uppbygging vegna rannsókna og undirbúnings setti mark sitt á Vopnafjörð og Langanesið í fyrirsjáanlegri framtíð.

austurglugginn.jpg

Líta má á þetta sem biðleik, heimamenn brynja sig þolinmæði og vona að gróðavonin lokki vinnslufyrirtækin í frekari tilboðsgerð þegar betur árar.

 Sagex Petroleum og Lindir Exploration drógu umsókn sína til baka og Aker Exploration einnig. Fyrirtækin báru fyrir sig erfitt efnahagsástand á útboðstímanum og þar af leiðandi erfiða fjármögnun, ásamt mikilli áhættu við að hefja rannsóknir á nýju olíusvæði. Ég blæs á það síðarnefnda, vogun vinnur, vogun tapar og það vita allir í þessum bransa og gera ráð fyrir áhættunni. Íslensk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir olíuskattinn sem Alþingi samþykkti fyrir ári. Hann gerir ráð fyrir að íslenska ríkið fái allt að 59% af tekjum olíuvinnslunnar. Þessi skattur, en aðallega þó vinnslugjald, sem leggst á áður en hagnaður myndast af olíuvinnslunni, virðist ásamt heimskreppunni hrekkja hugsanlega bjóðendur frá. Líklega heldur Orkustofnun áfram opnu fyrir umsóknum á grundvelli fyrsta útboðs. Rannsóknir virðast benda til að miklar auðlindir sé að finna á Drekasvæðinu, líkt og við Austur-Grænland. Olíu verður án vafa leitað á þessum svæðum. Hvort menn og mannvirki á landi verða tilbúin til að taka á móti slíkum heljarinnar umsvifum er óvíst, en einhverjir munu stökkva á að þjónusta rannsóknir og síðar vinnsluna. Hvort sem það verður fólk á Norðausturhorni Íslands eða einhverjir aðrir. Vopnfirðingar og Langnesingar í kompaníi við fleiri aðila ætla að gera sitt ítrasta til hreppa hnossið, eða í það minnsta einhvern hluta af því.   Velta má fyrir sér sjónarmiðum skynsamlegrar auðlindanýtingar og mengun andrúmsloftsins. Af þeim sjónarhóli væri víst áreiðanlega langskynsamlegast að láta Drekaolíuna eiga sig og koma þar hvergi nálægt. Ég er bara handviss um að hún verður unnin, íbúar jarðarinnar láta sig flestir litlu skipta þó olíuuppsprettur jarðar séu þverrandi, líkt og hreint vatn og ræktanlegt land. Fólksfjölgun eykst hröðum skrefum, við erum nú eitthvað um 6,5 milljarðar talsins og því spáð að mannkyn muni telja 9,4 milljarða eftir fjörtíu ár. Jörðin er um það bil að hætta að bera allan þennan fjölda. Það verður verkefni barnanna okkar að breyta hugsunarhætti og þróa áfram aðferðir til að draga á markvissan hátt úr blindri viðleitni mannkyns til að útrýma sjálfu sér.   En það var þetta með Drekann; við bíðum bara átekta. Steinunn Ásmundsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.