SSA hafnar óskum Eyþings um frekari þátttöku í kostnaði við akstur Strætó
Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi hefur hafnað óskum Eyþings, samtaka sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjasýslum, um þátttöku í auknum kostnaði af akstri strætisvagna á milli Egilsstaða og Akureyrar.Þegar almenningssamgöngur voru færðar frá Vegagerðinni til sveitarfélaga í árslok 2011 óskaði Eyþing eftir að fá að sjá um aksturinn á milli Norðurlands og Austurlands og hafa hann inni í sínu útboði.
Á þetta féllst SSA en Vegagerðin hafði áður skipt honum upp í tvennt þannig að tæp 43% leiðarinnar tilheyrðu SSA en afgangurinn Eyþingi. SSA framseldi þannig sinn legg og með honum þá fjármuni sem sambandið fékk frá Vegagerðinni.
Eyþing skipulagði aksturinn og tengdi hann við leiðakerfi sitt á Norðurlandi. Tímasetningar ferðanna austur pössuðu hins vegar illa við þær almenningssamgöngur sem SSA var að koma á fót á sama tíma. Valdimar O. Hermannsson, formaður SSA, segir að Eyþing hafi í raun skipulagt aksturinn án samráðs við Austfirðinga.
Þegar fjárhagsáætlanir Eyþings um aksturinn gengu ekki eftir var leitað til SSA um þátttöku í kostnaði. Þeim umleitunum hefur SSA nú hafnað tvisvar.
„Eyþing óskaði eftir þátttöku okkar í útreiknuðum halla af þessum legg sem er hluti af stærri hluta. Við höfnuðum því á þeim forsendum að það hefði ekki verið haft neitt samráð við okkur um skipulagið þótt það hefði verið eðlilegt þar sem við værum á hinum endanum.
Við höfum ítrekað sagt að við leggjum ekki meira til en þau 43% sem við fáum frá Vegagerðinni. Við höfum hins vegar boðist til að taka yfir aksturinn á milli Mývatns og Egilsstaða því við höfum til dæmis hagsmuni af því að tengja aksturinn við okkar kerfi," segir Valdimar en enn eru engar skipulagðar samgöngur við Vopnafjörð.
Til að bregðast við hallanum óskaði Eyþing eftir að fargjaldið væri hækkað. Strætó bs., sem sér um aksturinn, gerði það en fyrirfórst að tilkynna farþegum um hækkunina eins og Austurfrétt greindi frá í gær.
„Þeir hafa nú fækkað ferðum og hækkað gjaldskrár. Það er algjörlega án samráðs við okkur. Við höfum hins vegar ekkert um það að segja eins og er.
Það kann vel vera að Eyþing hafi verðlagt ferðirnar fulllágt og gert ráð fyrri of mörgum farþegum í byrjun. Við því hefur núna verið brugðist."