Landinn kemur ekki í stað svæðisútvarpsins: Stór hluti innslaganna úr borginni
Stór hluti þess efnis sem unnið er fyrir sjónvarpsþáttinn Landann kemur af höfuðborgarsvæðinu. Fræðimaður, sem rannsakað hefur efnisval þáttarins, segir að þátturinn eigi langt í land með að fylla það skarð fyrir Austfirðinga sem myndaðist þegar reglubundnum útsendingum svæðisútvarpsins (RÚVAust) var hætt.Þetta er meðal þess sem fram kemur í rannsóknum sagnfræðingsins Hrafnkels Lárussonar á svæðisbundinni fjölmiðlum en kastljósinu beinir hann fyrst og fremst að Austurlandi.
Frétta- og þjóðlífsþátturinn Landinn hóf göngu sína í sjónvarpinu og var meðal annars kynntur þannig til leiks að hann myndi að einhverju fylla í skarð svæðisstöðvanna sem lagðar höfðu verið af.
Hrafnkell segir að í ljósi niðurstöðu könnunar sem hann gerði á efnisval og uppruna efnis í Landanum nú í vetur sé langur vegur þarna á milli.
„Svæðisútvarpið sinnti viðamiklu og fjölþættu hlutverki. Það hélt uppi öflugri fréttaþjónustu, innan svæðis og utan, og sinnti annarri upplýsingadreifingu ásamt því að styðja við lýðræðislega umræðu. Svæðisútvarp Austurlands sendi út fjórum til fimm sinnum í viku í 30 mínútur í senn eða um 480-600 mínútur á mánuði (120-150 á viku)," skrifar Hrafnkell í grein sem birtist hér á Austurfrétt í gær.
„Svo viðamiklu hlutverki sem Svæðisútvarpið gerði skil getur vikulegur sjónvarpsþáttur eins og Landinn ekki sinnt. Formið leyfir það einfaldlega ekki. Meðan svæðisútvörpin gátu átt í samtali við samfélagið getur Landinn einungis miðlað af því brotakenndum myndum.
Gagnvart Austurlandi sinnir þátturinn einungis mjög takmörkuðu upplýsingahlutverki (að jafnaði tvö ca. fimm mínútna löng innslög frá Austurlandi á mánuði).
Til viðbótar er sú hætta ávallt til staðar þegar frétta- eða dagskrárgerðarmenn sækja efni um langan veg að efnisumfjöllunin verði grunn og tilviljanakennd vegna þess að viðkomandi hefur takmarkaða þekkingu á viðfangsefninu og samfélagsgerðinni. „
Fæst innslög að austan
Í könnun Hrafnkels kom í ljós að aðeins 9/102 innslögum í þættinum voru af því svæði sem RÚVAust sinnti áður.
„Sé litið á skiptingu efnis hans eftir landshlutum rekur Austurland lestina (með 9 innslög) og nær ekki að vera hálfdrættingur á við þá fjórðunga sem koma þar næstir á undan (Suðurland og Vesturland með 19 innslög hvor).
Athygli vekur að af einstökum landshlutum skuli flest innslög eiga uppruna sinn í Reykjavík en það er í nokkurri mótsögn við þá ímynd þáttarins að hann sinni fyrst og fremst málefnum landsbyggðarinnar."
Hrafnkell bendir einnig á að um fjórðungur innslaga umfjallanna í Landanum séu ýmiskonar kynningar á vöru eða þjónustu. Slíkt eigi við um 27 af 102 innslögum sem hann greindi.
„Yfirleitt fjalla þessi innslög um einyrkja eða fólk sem rekur lítil fyrirtæki. Oft er um að ræða sérhæfða framleiðslu sem flokka má sem sprotastarfsemi."
Landinn er ekki þjónustuaukning við landshlutana
Hrafnkell segir að efnisval Landans sé fjölbreytt og þáttastjórnendur verðskuldi hrós fyrir hugmyndaauðgi. Þegar öllu sé á botninn hvolft eigi þátturinn langt í land með að fylla skarð RÚVAust.
„Eins ágætur sjónvarpsþáttur og Landinn jafnan er þá var hann fyrst og fremst viðbót við íslenska dagskrárgerð í sjónvarpi þegar hann hóf göngu sína. Sú fullyrðing að Landinn hafi komið í stað Svæðisútvarpanna (tilkoma þáttarins hafi jafnvel verið þjónustuaukning við þá landshluta sem áður höfðu svæðisútvarp) stenst hins vegar ekki skoðun og er í raun fráleit. Henni hefur enda jafnan verið slegið fram án teljandi rökstuðnings. Þetta tvennt er ekki sambærilegt og hefur aldrei verið það."
Hrafnkell kynnir rannsókn sína á austfirskum svæðismiðlum í fyrirlestri í fyrirlestrarröð Sagnfræðingafélagsins í Þjóðminjasafninu á morgun (þriðjudag) kl. 12:05 og aftur á laugardag milli 10 og 12 á Hugvísindaþingi í stofu 225 í aðalbyggingu Háskóla Íslands.