Áhyggjur af mörkuðum í Asíu ef ekki veiðist loðna annað árið í röð

Staða viðskiptaaðila austfirskra sjávarútvegsfyrirtækja í Asíu gæti orðið erfið ef ekki veiðist loðna á Íslandsmiðum annað árið í röð. Talsmenn Síldarvinnslunnar í Neskaupstað halda enn í vonina og kalla eftir að farið verði í ítarlegar rannsóknir á lífi loðnunnar.

Þetta er meðal þess sem fram kemur á síðu Síldarvinnslunnar í Austurglugganum sem kom út fyrir helgi.

Þar segir að ef svo ólíklega vilji til að loðnubrestur verði annað árið í röð sé full ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu mála. Loðnuafurðir séu verðmætar á mörgum mörkuðum og erfitt geti að endurheimt þá þegar loðnan veiðist á ný, detti þeir alveg út.

Asíumarkaður hefur verið verðmætasti markaðurinn fyrir loðnuhrogn og hrygnu með ákveðna hrognafyllingu, en hængurinn hefur verið frystur og seldur til Austur-Evrópu. Í Asíu hafi birgðastaðan gjarnan verið góð og þannig getað mætt sveiflum á milli ára en nú séu birgðirnar að klárast.

Japansmarkaður hefur verið verðmætasti markaður Síldarvinnslunnar fyrir loðnuafurðir en verð þar sveiflast í takt við framboð og eftirspurn hverju sinni. Tæp 60% loðnu á Japansmarkaði undanfarin sex ár hefur komið frá Íslandi. Þá er ótalin sá hluti sem norskar útgerðir hafa veitt á Íslandsmiðum.

Því er ljóst að loðnan skiptir umtalsverðu máli fyrir rekstur margra fyrirtækja í Asíu. Í pistli Síldarvinnslunnar segir að viðskiptavinir hennar í Asíu hafi áhyggjur af stöðu mála og fylgist grannt með loðnuleit hérlendis, enda sé þegar ljóst að enginn kvóti verði gefinn út í Barentshafi.

Í pistlinum er einnig bent á að nauðsynlegt sé að afla vitneskju um atferli og gönguferli loðnunnar með rannsóknum því loðnan skipti miklu máli í fæðukeðjunni í hafinu. Um leið þurfi að skoða hve mikið af loðnunni endi í maga hvala og annarra sjávardýra, en ljóst sé að hvölum hafi fjölgað verulega við strendur landsins síðustu 20 ár.

Eins þurfi að skoða reiknireglur fyrir stofnmatið, sem teknar voru upp fyrir nokkrum árum. Spurt er hvort áhætta væri að gefa út byrjunarkvóta, þannig gæti veiðiflotinn farið af stað til að finna loðnu þannig hægt væri að sinna mikilvægustu mörkuðum. Sagan sýni að örðugt geti verið að hitta á loðnugöngur og örfá leitarskip geti auðveldlega siglt framhjá þeim.

Mikið er í húfi, en áætlað er að laun sjómanna og starfsfólks í landi af 180 þúsund tonna kvóta yrðu um sex milljarðar. Þá séu ótalin afleidd störf, en heildarútflutningsverðmæti slíks kvóta yrði 26 milljarðar.

Síðasta leitarleiðangri lauk um helgina án þess að loðna fyndist í slíku magni að hægt væri að gefa út veiðikvóta. Árni Friðriksson, skip Hafrannsóknastofnunar, er enn á sjó og stefnt er að því að hefja nýjan leiðangur á næstu dögum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar