„Alveg ótrúlegt hversu vel fólk tók í þetta“

„Það var búin að vera umræða hér í bænum um að nýta þennan tiltekna blett betur og hversu gaman væri að fá ærslabelg á hann. Við maðurinn minn, Óli Heiðar Árnason, stofnuðum síðan Facebookhóp og á þriðja degi voru meðlimir orðnir 300 manns. Það var því augljóst að áhuginn á þessu var virkilega mikill og því ákveðið að skoða þetta,“ segir Hrefna Eyþórsdóttir.

Hrefna fer fyrir hönd hóps sem vinnur nú að uppbyggingu á fjölskyldu- og útivistargarði í svkölluðum Skrúðsgarði á Fáskrúðsfirði. „Við sendum fyrirspurn á Fjarðabyggð um hvert deiliskipulagið væri fyrir þennan reit og hvort það væri möguleiki að við, sem áhugahópur, mættum koma að uppbyggingu á fjölskylduvin á svæðinu. Þegar við fengum jákvætt svar þaðan auglýstum við vinnufund sem 16 manns mættu á. Við fórum síðan í fjáröflun og 3 vikum seinna mætti ærslabelgurinn á svæðið.“

Allir lögðust á eitt í söfnun

Lofti var þó ekki dælt í belginn fyrr en fjáröflun var lokið, en það var nú fimmtudaginn 19. Október síðastliðinn. „Við fórum alveg á fullt í fjáröflun með því að setja dreifibréf í hús, auglýsa á facebook og hafa sambnd við fyrirtæki hér í bæ. Það var alveg ótrúlegt hversu vel fólk tók í þetta, en meðal bæjarbúa söfnuðst um 700.000kr. Það voru börn sem gáfu afmælispeningana sína og söfnuðu dósum og gáfu ágóðann í þessa söfnun, ömmur og afar gáfu upphæð fyrir hvert barnabarn og brottfluttir íbúar gáfu til að styrkja okkur. Við fengum síðan styrk frá slysavarnardeildinni hér á svæðinu og Fosshótel á Fáskrúðsfirði og að lokum gáfu Kaupfélagið og Loðnuvinnslan þar sem vantaði upp á. Skrúðsverk aðstoðaði okkur síðan ómetandlega með vinnuframlagi sínu og láni á vélum og vélamanni,“ segir Hrefna.

Allar þvottavélar bæjarins á fullu

„Við fengum ábendingu frá Stykkishólmi, þar sem belgurinn er rétt hjá skólanum þar, að hann trufli smá kennslu því hann þykir svo spennandi. Það er svo að hér er hann staðsettur á leið barnanna í íþróttir, svo við tókum á það ráð að hafa ekki loft í honum fyrr en eftir skóla, svona svo allir skili sér nú í og úr íþróttum. Við tökum síðan loftið úr honum þegar löglegum útivistartíma lýkur á kvöldin.
Það er því miður bara búið að vera rigning og drulla síðan belgurinn kom upp en það hefur ekki stoppað krakkana í leik. Börnin eru því glöð og allar þvottavélar bæjarins þvo á fullu,“ segir Hrefna.

Leggja af stað í næstu fjáröflun

Það liggur beinast við að spyrja hana hvað sé næst á dagskrá nú þegar ærslabelgurinn er kominn upp eftir svona góðar viðtökur bæjarbúa. „Okkur langar að fá landslagsarkitekt til að teikna upp með okkur þær hugmyndir við erum með. Við erum að leggja af stað í næstu fjáröflun, en það er vilji til að setja upp frisbígolfvöll, aparólu og leikvöll fyrir yngstu börnin. Við erum reyndar komin með nokkur tæki fyrir þann völl sem við fengum að gjöf, svo næst á dagskrá er að óska eftir samfélags og fyrirtækjastyrkjum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar