Appelsínugul viðvörun í gildi á Austfjörðum allan morgundaginn
Veðurstofan hefur gefið út tvær appelsínugular viðvaranir fyrir Austfirði á morgun og eina fyrir Austurland að Glettingi. Von er á mikli hvassviðri, jafnvel ofsaveðri, frá lægð sem dýpkar hratt á leið til landsins.Fyrri viðvörunin fyrir Austfirði gengur í gildi klukkan níu í fyrramálið og gildir til klukkan átta um kvöldið. Á þeim tíma er spáð sunnan 20-28 m/s og vindhviðum jafnvel yfir 40 m/s. Það skapar líkur á staðbundnu foktjóni.
Rigning fylgir sunnanáttinni, þó ekki sérstaklega mikil. Eins verður hlýtt, 5-10 gráður. Akstursskilyrði verða hins vegar varasöm vegna hvassviðris og eins hálku þar sem blaut svell verða á vegum.
Upp úr kvöldmat snýst vindurinn aðeins til vesturs. Þá tekur gildi ný viðvörun sem stendur fram yfir miðnætti. Áfram er spáð suðvestan 20-28 m/s og um eða yfir 40 m/s í hviðum.
Þær upplýsingar fengust hjá Veðurstofu Íslands að hvasst verði um allt svæðið og um mikið hviðuveður sé að ræða. Heimamenn þekki síðan hvar verstu hviðurnar myndist eftir því hvernig vindáttin stendur.
Á Austurlandi er gul viðvörun í gildi frá 10-20. Þá er spáð sunnan 18-25 m/s með hlýindum sem getur skapað blaut svell og hættu á vegum. Líkur eru á rigningu af og til.
Klukkan 20 gengur appelsínugul viðvörun í gildi. Þá er spáð vestan eða suðvestan 20-30 m/s sem getur slegið upp í ofsaveður. Veðurstofan segir að á þeim tíma verði ekkert ferðaveður og líkur á staðbundnu foktjóni.
Veðrinu veldur lægð sem dýpkað hefur hratt á leið til landsins og verður orðin óvenjudjúp þegar hún skellur á landinu. Hún kemur upp að því sunnanverðu í fyrra og gengur þvert yfir til norðurs.
Óvissustig er enn í gildi á Austfjörðum vegna ofanflóðahættu. Nýjar tilkynningar hafa ekki verið skráðar hjá Veðurstofunni í dag, en í athugasemdum ofanflóðadeildar kemur fram að hætt sé á votum snjóflóðum til fjalla meðan ekki hafi fryst. Þá gætu vindflekar myndast í kvöld og á morgun þegar snjóar í sunnanáttum.
Vegagerðin hefur gefið frá sér viðvörun um að vænta megi hviða yfir 35 m/s við fjöll frá Egilsstöðum suður undir Vík á morgun. Eins verði miklar hviður á norðanveru landinu annað kvöld og líkur á snjókomu. Landsnet hefur sent frá sér viðvörun um að veðrið auki líkur á samslætti og rafmagnstruflunum.