Atvinnusvæði rýmd á Seyðisfirði
Ákveðið hefur verið að rýma fjóra rýmingarreiti á Seyðisfirði í dag vegna snjóflóðahættu. Um er að ræða atvinnusvæði sitt hvoru megin fjarðar.Að sunnanverður verða rýmdir reitir SE01 og SE02 við Strandarveg. Þeir eru yst í byggðinni undir Strandartindi. Innri reiturinn, SE02, stendur utan við athafnasvæði Síldarvinnslunnar.
Að norðanverðu verða rýmdir reitir SE24 og SE26 við Ránargötu, undir Bjólfi, fyrir utan nýjan varnargarð sem verið er að byggja. Í fyrstu tilkynningu almannavarna í dag var ranglega tilkynnt að reitur SE25 yrði rýmdur.
Hægt er að skoða reitina á rafrænu rýmingarkorti í gegnum kortasjá Múlaþings, með að velja „skipulag“ og rýmingarsvæði.“
Fjöldahjálparmiðstöð verður opnuð í félagsheimilinu Herðubreið klukkan 13:00. Íbúar af rýmingarsvæðum eru hvattir til að mæta þangað og láta vita af sér eða hringja í hjálparsíma Rauða krossins, 1717. Björgunarsveitir ganga í hús og leiðbeina um rýmingu. Stefnt er að því að henni verði lokið fyrir klukkan 18:00 en þá tekur hættustig gildi.
Áfram verður miðlað upplýsingum um stöðuna í dag í gegnum Facebook-síður og heimasíður lögreglunnar á Austurlandi, almannavarna, Múlaþings og Fjarðabyggðar auk hefðbundinna fjölmiðla, meðal annars Austurfréttar.
Rýmt er vegna spár um allt að 300 mm snjókomu fram til þriðjudags, sem þýðir nokkurra metra snjódýpt til fjalla. Eldri snjóalög þykja óstöðug. Einnig er í dag rýmt í Neskaupstað.