Tvö snjóflóð loka Hringveginum
Hringvegurinn á Austfjörðum er lokaður á tveimur stöðum, annars vegar í milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar og hins vegar Djúpavogs og Hafnar vegna snjóflóða.Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að snjóflóðin hafi fallið upp úr klukkan fimm í dag. Þar segir að ólíklegt sé að mokað verði í kvöld.
Hjá Veðurstofunni er flóðið í Færivallaskriðum milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar skráð af stærðinni 2, en slík flóð geta grafið fólk. Snjóflóð féll einnig í skriðunum aðfaranótt laugardags og lokaði veginum. Það var af stærðinni 1. Bíll keyrði inn í flóðið og var dreginn í burtu. Engin slys urðu á fólki.
Þessu til viðbótar er búið að lýsa yfir óvissustigi á Fagradal vegna snjóflóðahættu frá klukkan 19 í kvöld. Þæfingur er þar og stórhríð, sem og á vegum sunnan Fáskrúðsfjarðar.
Mynd úr safni frá Vegagerðinni.