Rýma svæðið sem snjóflóðin féllu á 2023

Ákveðið hefur verið að rýma íbúðarhús á svæðinu sem varð fyrir snjóflóðunum í Neskaupstað í lok mars árið 2023. Fjöldahjálparmiðstöð verður opnuð í Neskaupstað.

Óvissustigi almannavarna vegna snjóflóðahættu var lýst yfir á hádegi á Seyðisfirði og í Neskaupstað. Dagsbirtan verður notuð til að rýma hús þar. Ástæðan er spá um mikla snjókomu, allt að 300 mm til fjalla fram til þriðjudags. Í Neskaupstað verða þrír reitir rýmdir og fjórir á Seyðisfirði.

Í Neskaupstað er í fyrsta lagi um að ræða reit NE 18, en á því svæði eru 37 íbúðir. Í grófum dráttum er um að ræða svæðið sem snjóflóðin að morgni 27. mars féllu á árið 2023, og nær yfir Starmýri, Gauksmýri, Valsmýri, Hrafnsmýri, Nesbakka og Víðimýri.

Þá er rýmt svæðið inn á Strönd, reitir NE01 og NE02. Það er atvinnusvæðið sem teygir sig frá innri enda byggðarinnar í Neskaupstað og inn á og fyrir ofan athafnasvæði Síldarvinnslunnar.

Nánari upplýsingar um rýmingarreitina eru í rafrænu rýmingarkorti í kortasjá Fjarðabyggðar. Þá má sjá með að velja „skipulag“ og „rýmingarsvæði.“

Fjöldahjálparstöð verður opnuð í Egilsbúð kl. 13:00 í dag. Íbúar af rýmingarsvæðum eru hvattir til að mæta þangað og láta vita af sér eða hringja í hjálparsíma Rauða krossins, 1717. Björgunarsveitir ganga í hús og leiðbeina um rýmingu. Stefnt er að því að henni verði lokið fyrir klukkan 16:00 því klukkan 18:00 tekur hættustig gildi.

Áfram verður miðlað upplýsingum um stöðuna í dag í gegnum Facebook-síður og heimasíður lögreglunnar á Austurlandi, almannavarna, Múlaþings og Fjarðabyggðar auk hefðbundinna fjölmiðla, meðal annars Austurfréttar.

Mynd: Landsbjörg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.