Barn fæddist á Seyðisfirði í morgun
Tekið var á móti barni á Seyðisfirði í morgun. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) segir ófærð alltaf valda röskun á heilbrigðisþjónustu þótt fæðingin hafi gengið það hratt og vel að ófær Fjarðarheiðin kom ekki að sök.Móður og barni heilsast vel. Fæðingin gekk það hratt fyrir sig að þótt Fjarðarheiðin hefði verið fær hefði ekki náðst að fara með fólkið á Umdæmissjúkrahúsið í Neskaupstað í tíma.
Á Seyðisfirði er til staðar læknir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur sem aðstoðuðu við fæðinguna í morgun, sem gekk eftir því sem næst verður komist vel.
Austurfrétt greindi fyrr í morgun að keppst væri við að opna Fjarðarheiði og Fagradal því sjúkrabíll biði þess að flytja manneskju til Norðfjarðar. Guðjón Hauksson, forstjóri HSA, segir að til skoðunar hafi verið að flytja nýfætt barnið og móður þess til Norðfjarðar en það hafi verið talinn óþarfi.
Víða var ófært á Austurlandi eftir mikla snjókomu í gær. Beðið var með að ryðja Fannardal, sem vegurinn til Norðfjarðar liggur um, þar til birti til að tryggt væri að snjóflóðahætta væri ekki til staðar. Fagradal var lokað í gærkvöldi og Fjarðarheiði sömuleiðis.
Guðjón segir að þótt færðin hafi ekki skipt sköpun í fæðingunni í morgun valdi ófærð alltaf röskun á heilbrigðisþjónustu. „Fyrir heilbrigðisþjónustu skiptir máli að fólk komist á milli staða með öruggum hætti. Við aðstæður sem þessar verður bæði erfiðra fyrir fólk að komast í þjónustuna og allt viðbragð að athafna sig.“
Mynd úr safni.